Íslandsbanki stefnir á skuldabréfaútgáfu á erlendum mörkuðum á næstunni. Þetta sagði Birna Einarsdóttir bankastjóri bankans í viðtali við Bloomberg í dag.

Hún segir ýmsa hvata vera til staðar en meðal annars sé verið að skoða á hvaða mörkuðum eigi að gefa út skuldabréf, hversu mikið eigi að gefa út og hvað sé næsta skref bankans. Birna segir áhuga fjárfesta að aukast og Ísland stefni nú í rétta átt. Því væri umhverfið hagstætt fyrir nýtt skuldabréfaútboð, en fyrsta útboð bankans var upp á 500 milljónir sænskra króna og fór fram í desember í fyrra.