Aðspurðir um framhaldið segjast þeir Einar Örn Einarsson og Emil Helgi Lárusson, eigendur Serrano, báðir alltaf hafa séð fyrir sér að reka þessa staði víðar og gera þá að alþjóðlegri keðju.

„Við þurftum að hugsa nánast frá upphafi hvernig við myndum halda stöðlum og gæðum þannig að viðskiptavinir gætu gengið að því sem vísu að þeir væru að fá sömu vöruna hvar sem þeir kæmu. Þess vegna tókum við þá ákvörðun fyrir nokkrum árum að til að tryggja þetta þyrftum við að ferlavæða fyrirtækið og taka upp gæðastaðla,“ segir Emil Helgi í viðtali við Viðskiptablaðið.

„Við ætluðum okkur alltaf að opna fleiri en einn stað og gera þetta að keðju. Það er þó dýrt og alls ekki auðvelt, t.d. að útbúa rekstrarhandbækur og koma framleiðslunni í það form að við getum látið magnframleiða birgðir fyrir okkur. Þetta hefur kostað hellings fjármagn en við erum þá betur í stakk búnir að stækka hratt ef vel tekst til hjá okkur.“

Og hvert stefnið þið næst?

„Alla leið!“ segir Emil Helgi og þeir hlæja báðir. Einar Örn bætir því við að nú sé Serrano orðið tíu ára gamalt fyrirtæki og hingað til hafi samkeppnin ekki verið mikil.

„Miðað við það hvernig við höfum byggt þetta fyrirtæki upp og þá trú sem við höfum á þessu þá tel ég ekki galið að við getum opnað svona staði í öðrum löndum, s.s. Danmörku, Finnlandi, Hollandi og Þýskalandi innan fárra ára,“ segir Einar Örn.

Í viðtali við Viðskiptablaðið fara þeir Einar Örn og Emil Helgi yfir farinn veg frá stofnun Serrano, erfiða byrjun í útrás, hvað það er sem gerir vörumerkið gott og framtíð félagsins. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðinum tölublöð hér að ofan.