Vitneskja var um það innan Glitnis í apríl 2008 að fjárhagsstaða Fons, eignarhaldsfélags Pálma Haraldssonar, væru slæm. Félagið var þá þegar í miklum vanskilum við Glitni. Samt sem áður var unnið að gerð nýrra lánasamninga í bankanum sem tryggðu Fons nýtt lausafé. Pálmi sendi forstjóra bankans enn fremur fyrirmæli um hvernig ætti að greiða úr hans málum á þessum tíma.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í stefnu skilanefndar Glitnis gegn Jóni Ásgeiri, Pálma Haraldssyni, Lárusi og þremur fyrrum starfsmönnum Glitnis þar sem þeir eru sameiginlega krafðir um greiðslu á sex milljörðum króna auk vaxta frá miðju ári 2008. Viðskiptablaðið mun fram eftir degi í dag birta valda kafla úr stefnunni.

Fjárhagsstaða Fons var slæm og búið var að afskrifa kröfur á Stím

Í stefnunni segir að „á þessum tíma var Fons hf. í verulegum vanskilum við bankann. Félagið skuldaði afborganir af lánasamningum að fjárhæð u.þ.b. 3,4 milljarða króna en af þeirri fjárhæð voru u.þ.b. 2,7 milljarðar króna. Vegna láns sem Fons hf. hafði endurlánað til Stím ehf. í gegnum dótturfélagið FS38 ehf. Stím ehf. var komið að fótum fram og eignir þess verðlitlar [innsk. blaðam. eignir Stím voru hlutabréf í FL Group og Glitni] ef nokkrar enda hafði bankinn afskrifað kröfur sínar á Stím ehf. Að auki hafði bankinn ónógar tryggingar vegna framvirkra samninga bankans við Fons hf. um hlutabréf í FL Group hf. og stóð Fons hf. því frammi fyrir veðkalli.  Upplýst er að þegar í apríl 2008 hafi verið vitneskja í bankanum um að fjárhagsstaða Fons hf. væri slæm.“

Þær kröfur sem Glitnir átti á Stím urðu til þegar bankinn lánaði félaginu á þriðja tug milljarða króna til að kaupa hlutabréf í FL Group, þá stærsta eiganda Glitnis, og bankanum sjálfum í nóvember 2007. Þetta var gert vegna þess að bankinn þurfti að losa sig við umrædd hlutabréf en engin eftirspurn var eftir þeim. Rúmum mánuði síðar, í árslok 2007, afskrifaði Glitnir tugmilljarðakröfur sínar á Stím.

Ársreikningur Fons átti að sýna 60 milljarða króna eignir

Guðný Sigurðardóttir, sem er ein hinna stefndu í málinu, sendi Pálma tölvupóst um þetta leyti þar sem meðal annars var farið yfir upplýsingar um stöðu gjaldfallina lána á hans vegum. Í svarpósti Pálma, sem var sendur 3. júní 2008, kemur fram að „hann og starfsmenn bankans hafi rætt um að bankinn myndi kaupa bréfin í Aurum af Fons hf. Boðaði Pálmi að Einar Þór Sverrisson hrl., stjórnarmaður í Fons hf. og lögmaður Pálma myndi hitta Guðnýju oig fara yfir stöðu félagsins skv. drögum að ársreikningi Fons en hann átti að sýna eignir Fons hf. að fjárhæð 60 milljarða króna“.

„Rest er frítt til ráðstöfunar fyrir Fons“

Í svarpósti Pálma til Guðnýjar þann 3. júní gaf hann eftirfarandi fyrirmæli til hennar og Lárusar Welding, þáverandi forstjóra Glitnis:

„Ég ítreka að ég legg mikla áherslu á að við gerum þetta með þeim hætti sem rætt var um. 1. Þið greiðið 6000m fyrir Aurum bréfin að vþí gefnu að þið séuð komin með puttið sem ykkur var lofað í gær. 2. Við greiðum upp F 38 2,730m 3. Við greiðum upp Plastprent lánið 522 og þið haldið samt bréfunum áfram til tryggingar á skuldum okkar, 4. Lánið frá því í febrúar greiðum við vexti og lánið framlengist í eitt ár á sömu kjörum og vextir rúllast áfram. 5. 500m fara inn á markaðsviðskipti okkar 6. 1000 fara í að greiða skuld við JAJ 7. Rest er frítt til ráðstöfunar fyrir Fons.“