Þann 22. maí 2008 sendi Jón Ásgeir Jóhannesson enn á ný fyrirmæli á forstjóra Glitnis, Lárus Welding. Sá póstur var líka sendur á Bjarna Jóhannsson, viðskiptastjóra hjá bankanum.

Fyrirsögn póstsins var; „Þetta eru málin sem ég er að bögga ykkur með aðallega í tekjuöflun fyrir bankann setti þetta skýrrt upp the Bonus way svo við getum með einföldum hætti klárð“.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í stefnu skilanefndar Glitnis gegn Jóni Ásgeiri, Pálma Haraldssyni, Lárusi og þremur fyrrum starfsmönnum Glitnis þar sem þeir eru sameiginlega krafðir um greiðslu á sex milljörðum króna auk vaxta frá miðju ári 2008. Viðskiptablaðið mun fram eftir degi í dag birta valda kafla úr stefnunni.

Bögg Jóns Ásgeirs og the Bonus Way

Í meginmáli póstsins segir ennfremur:

„Þetta eru málin nenni ekki að bögga ykkur á hverjum degi með þessu enda ætlast ég til að CEO þessara félaga vinni sín mál ef við komum þessum málum frá þá er borðið mitt hreint. Annars er kannski best að ég verði starfandi stjórnarformaður GLB.“ Samkvæmt stefnunni er Jón Ásgeir þarna talin vera að gefa Lárusi og Bjarna fyrirmæli um ákveðna gerninga. Gangi vilji hans ekki eftir sé kannski best að hann taki sjálfur formlega við stjórnartaumunum í bankanum.

Í stefnunni segir að þau mál sem Jón Ásgeir vísar til í fyrirsögn póstsins varði öll félög í fjárhagslegum tengslum við Jón Ásgeir og Pálma Haraldsson. Fyrsta tilgreinda málið var „Goldsmith v. Fons“. Í stefnunni segir að „fyrirmæli stefnda Jóns Ásgeirs því viðkomandi voru að það mál skyldi unnið „i vikunni“ og lánaður yrði 1,2 milljarður gegn 4 milljarða króna veði en ekki er getið um veðið“. Tölvupósturinn endaði síðan með eftirfarandi orðum; „stutt og skýrt.“

Starfsmenn látnir búa til lánamál vegna fyrirmæla Jóns Ásgeirs

Ofangreindan póst áframsendi Lárus Welding síðan á Magnús Arnar Arngrímsson, sem er einn hinna stefndu í málinu, og Bjarna Jóhannesson viðskiptastjóra. Afrit voru send til Rósants Más Torfasonar, sem einnig er einn hinna stefndu í málinu, og Einars Örn Ólafssonar, þáverandi framkvæmdastjóra fyrirtækjaráðgjafar Glitnis ásamt eftirfarandi fyrirmælum: „Maggi Bjarni þið verðui (sic) að búa til lánamál úr tveimur efstu málnum (sic)þarna og tka (sic) þetta fyrir.“

Annað málið sem Magnús og Bjarni eru þarna skikkaðir til að „búa til lánamál úr“ er lánveiting til Fons vegna Aurum, eiganda Goldsmiths.