FS38 ehf., dótturfélag Fons, sem fékk sex milljarða króna lánafyrirgreiðslu hjá Glitni í júní 2008 var á engan hátt hæft til að fá slíkt lán.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í stefnu skilanefndar Glitnis gegn Jóni Ásgeiri, Pálma Haraldssyni, Lárusi og þremur fyrrum starfsmönnum Glitnis þar sem þeir eru sameiginlega krafðir um greiðslu á sex milljörðum króna auk vaxta frá miðju ári 2008. Viðskiptablaðið mun fram eftir degi í dag birta valda kafla úr stefnunni.

Þriggja milljarða skuld Fons vegna framvirkra samninga

Í lánabeiðninni vegna lánsins til FS38 ehf var óskað eftir hækkun á viðskiptamörkum Fons vegna hárra skulda félagsins við Glitni sem námu þá alls 29 milljörðum króna. Þar á meðal var lánveiting til M21 ehf., eignarlaus dótturfélags Fons, sem hafði fengið fyrirgreiðslu hjá Glitni til að leysa Baug Group undan sölutryggingu samkvæmt samningi við Sund ehf. í tengslum við Northern Travel Holding, sem átti meðal annars hið alræmda flugfélag Sterling.

Þá var töluvert tap af framvirkum samningum Fons, samtals upp á tæpa sjö milljarða króna. Á móti því tapi voru tryggingar í reiðufé upp á 3,8 milljarða króna og skuld Fons við bankann vegna framvirku samninganna því um þrír milljarðar króna.

Skuldir Fons voru þegar 10,25% af eigin fé Glitnis

Í stefnu skilanefndar Glitnis segir að „eigið fé (CAD) bankans nam á þessum tíma 283 milljörðum króna og heildarskuldir Fons námu 10,25% af egini fé bankans og töldust skuldbindingar Fons hf. við bankann til stórra áhættuskuldbindinga bankans. [...] Bar því að meðhöndla lánabeiðni FS38 ehf. og Fons hf. af sérstakri varúð með tilliti til þess að um stóra áhættuskuldbindingu var að ræða fyrir bankann [...] Ljóst var að FS38 ehf. var á engan hátt hæft til að fá 6 mánaða lán sem nam sex milljörðum króna, félagið var metið í áhættuflokk 8 og var nálægt því að fall í flokk 9 skv. flokkun lánastjóra“.

Að endingu samþykkti undirlánanefnd Glitnis, þann 11. júní 2008, að veita FS38 sex mánaða kúlulán upp á 2,2 milljarða króna. 200 milljónir króna áttu að fara að greiða vexti fyrir Fons en tveir milljarðar króna „færu í reiðufé til stefndu Jóns Ásgeirs og Pálma í gegnum Fons hf., eins og áform þeirra gengu út á skv. tölvupóstum sem gengið höfðu á milli stefndu“.

2,2 milljarðar ekki nóg og Jón Ásgeir leggur upp nýja áætlun

Þrátt fyrir ofangreinda samþykkt lánanefndar þá lögðu Jón Ásgeir, Pálmi og Lárus Welding upp nýja áætlun um stærri fyrirgreiðslu  bankans til Fons. Það er sú fyrirgreiðsla sem skilanefnd Glitnis vill fá endurgreidda.

Þann 16. júní sendi Jón Ásgeir tölvupóst til Bjarna Jóhannssonar viðskiptastjóra og afrit til Lárusar og Pálma þar sem fram komu ný fyrirmæli frá honum um lánveitingar frá Glitni til Fons. Yfirskriftin var „C.A. svona er staðann hafa þetta einfalt“.

Í póstinum sagði meðal annars:

„Í þessari tillgöu er gertr ráð fyrir að Fons haldi sínum hlut í Goldsmith

Lausn      FS38 Goldsmith kaupi bréf af FONS                                  6                  Glitnir færir lán vegna FS38                                                  -2,7                  FS38 greiðir til Fons                                                               3,3                  Markaðsviðskipti tap miðað við sölu á öllum bréfum á                  morgun                                                                                       7                  Peningalegar tryggingar                                                         -3,8                  Frádráttur vegna GLB þ.e.a.s. þau ekki seld                      -1,5                  Tap                                                                                               1,7                  Greitt inn á Fons frá FS38                                                       -1                  Skuldabréf FONS                                                                       0,7“

Eftir að hafa sent þennan póst útlistaði Jón Ásgeir, samkvæmt stefnunni,  hvernig ætti að leiða „út jákvæða niðurstöðu af rekstri „Goldsmith“ miðað við tilbúnar tölur um framtíðartekjur Aurum. Sú útleiðsla var tilhæfulaus.“

Pálmi sendi tölvupóst til að svara pósti Jóns Ásgeir um tillögur að lausn sama dag, þann 16. júní 2008. Þar kemur fram það sjónarmið Pálma að hann telji það „nokkuð ósanngjarnt“ a’ Fons þurfi eitt að taka á sig „F38 ævintýrið“ eins og það er orðað, en ekki útskýrt frekar hvað við er átt í póstinum. Pálmi gerði síðan breytingar á tillögu Jóns Ásgeirs sem laut að uppgreiðslu skuldabréfs og hann taldi „betri leið fyrir bankann.