Danirnir Svenn Dam og Morten Nissen Nielsen hafa stefnt Gunnari Smára Egilssyni fjölmiðlamanni og fyrrverandi formanni SÁÁ, fyrir dóm og krefjast þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda hans gagnvart þeim á grundvelli umboðsskorts. Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í vikunni, að því er fram kemur í Kjarnanum.

Svenn Dam er fyrrverandi stjórnarformaður útgáfufélags danska fríblaðsins Nyhedsavisen og Morten Nissen Nielsen er fyrrverandi forstjóri útgáfufélagsins. Þeir saka Gunnar Smára, þáverandi framkvæmdastjóra Dagsbrúnar, um hað hafa undirritað við þá hluthafasamkomulag í umboðsleysi árið 2006. Nyhedsavisen fór á hausinn haustið 2008.

Málið snýst um kaup tvímenninganna á hlutafé í dótturfélagi Dagsbrúnar, 365 Media Scandinavia A/S, sem var útgefandi Nyhedsavisen.