Orri Hauksson, forstjóri Símans, segir Símann stefna í uppbyggingu alþjóðlegs gagnavers og ljósleiðaravæðingu á höfuðborgarsvæðinu eftir umfangsmikla hagræðingu á samstæðunni. Gagnaverið mun rísa á jaðri höfuðborgarsvæðisins og renna enn einni stoð undir rekstur Símans.

Hvað er í deiglunni hjá Símanum um þessar mundir?

„Stærstu tvö framkvæmdaverkefnin á næstunni verða uppbygging alþjóðlegs gagnavers á jaðri höfuðborgarsvæðisins og ljósleiðaravæðing á höfuðborgarsvæðinu. Gagnaversiðnaðurinn hófst hérna fyrir áratug eða svo. Síminn hefur lengi velt fyrir sér þessum iðnaði, enda hefur Ísland upp á svo margt að bjóða í að reka gagnaver. Væntingarnar til gagnavera fyrir og eftir hrun voru kannski yfirdrifnar. Þetta gekk hægar en menn ætluðu.

Frá 2008 til 2013 var efnahagsreikningur Símans mjög erfiður. Það var ekkert í boði fyrir Símann á þessum árum að ráðast í uppbyggingu gagnavers. Kannski var það dulin blessun að því leyti að við erum tilbúnari núna og ákvörðun hefur verið tekin um að reisa gagnaver á jaðri höfuðborgarsvæðisins. Nú þarf að klára samninga um lóðir, tryggja orku og fleira, en það eru engar stórar hindranir í því.

Ein möguleg lóð fyrir gagnaverið er í Mosfellsbæ. Minnihlutinn í bæjarstjórninni þar hefur lýst yfir áhyggjum varðandi hljóðmengun af gagnaverinu, en þessar nýjustu gerðir af gagnaverum eru alveg hljóðlausar og hannaðar til að falla vel inn í umhverfið. Við erum mjög spennt fyrir því að setja enn eina stoð undir rekstur Símans.

Símasamstæðan hefur gefið út að hún ætli að ljósleiðaravæða höfuðborgarsvæðið. Færa á Ljósnetið á Reykjavíkursvæðinu alfarið í ljósleiðara. Sem betur fer á Míla rör, ljósleiðara og aðra innviði undir meira eða minna öllu höfuðborgarsvæðinu. Það er í raun búið að leggja um 80% leiðarinnar, umhverfisraskið og megnið af kostnaðinum er að baki. Eftir stendur að tengja inn í íbúðirnar.

Í lok árs verður búið að gefa um 30 þúsund heimilum möguleika á ljósleiðaratengingu. Á næsta ári verður það svipað og snemma árið 2018 verður Míla langt komin með að klára verkefnið. Þar sem búið er að tengja geta fjarskiptafyrirtæki í viðskiptum við Mílu boðið upp á 1 gígabit á sekúndu á næsta ári.“

En hvað með landsbyggðina?

„Samstæðan hefur verið öflug síðustu ár á landsbyggðinni og þörfin þar engu minni en hér syðra. Höfuðborgarsvæðið sogar mikið til sín núna vegna opinberrar niðurgreiddrar samkeppni í formi Gagnaveitu Reykjavíkur. Markaðsaðstæður eru einfaldlega þannig að þar sem fólkið er flest er hagkvæmast að vera og fyrir því finnur landsbyggðin. Síminn man alltaf uppruna sinn og allt landið er undir hjá samstæðunni, ólíkt helsta keppinauti okkar í innviðum.

Þegar uppbygging Ljósnets hófst árið 2009 varð höfuðborgarsvæðið fyrst fyrir valinu. Fjárfest hefur verið fyrir fimmtán milljarða á síðustu fjórum árum og er nú svo komið að yfir 90% landsmanna nær Ljósneti. Nethraðinn á Íslandi er almennt meiri en víðast hvar annars staðar. Við verðum að forgangsraða og fjárfestum skynsamlega þar sem áður.“

Viðtalið við Orra birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .