*

miðvikudagur, 8. desember 2021
Innlent 11. mars 2021 07:02

Stefna á markað í Ósló

Forstjóri CRI, telur best að skrá félagið á Euronext Growth markaðinn - gangi allt að óskum gæti það gerst eftir tvo mánuði.

Trausti Hafliðason
Ingólfur Guðmundsson, forstjóri Carbon Recycling International.
Eyþór Árnason

Stjórn Carbon Recycling International (CRI) mun óska eftir heimild frá hluthöfum til að skrá félagið á markað. Ingólfur Guðmundsson, forstjóri félagsins, telur Euronext Growth markaðinn í Osló besta kostinn. Hann segir að  norski bankinn SP1 Markets muni sjá um verkið og ef allt gangi að óskum verði félagið komið á markað eftir um tvo mánuði.

Carbon Recycling International, sem stofnað var árið 2006, byggði fyrstu verksmiðjuna sem framleiðir metanól úr koltvísýringi og vetni, í Svartsengi, en afurðin hefur verið seld innanlands og á Evrópumarkaði. Fyrirtækið þróar jafnframt og selur heildstæða tæknilausn til að framleiða vistvænt eldsneyti og efnavöru fyrir almennan markað. Tæknin er afrakstur mikilla rannsókna og þróunar og er vernduð með alþjóðlegum einkaleyfum. Nú á 15 ára afmæli félagsins stefnir í mikil tímamót því ráðgert er að skrá það á markað.

„Ég hef verið að skoða þetta í töluverðan tíma,“ segir Ingólfur Guðmundsson, forstjóri Carbon Recycling. Hann segir að skráningar á „grænum“ fyrirtækjum á Euronext Growth markaðinn í Noregi hafi gengið vel. Sem dæmi þá hafi norska Aker-samsteypan skráð nokkur svona félög. Síðastliðinn ágúst hafi til að mynda Aker Carbon Capture (ACC) verið skráð með góðum árangri.  ACC þróar búnað til að fanga koltvísýring. Frá því að félagið var skráð síðasta sumar hefur hlutabréfaverð þess sveiflast nokkuð. Í byrjun var það í kringum 5 norskar krónur en í dag stendur það í tæplega 14. Hæst hefur það verið í tæplega 23.

Euronext Growth í Osló

Ákveðin straumhvörf urðu hjá CRI síðastliðið haust þegar tilkynnt var um byggingu á verksmiðju í Finnfjord í Norður-Noregi. Á verksmiðjan að framleiða 100 þúsund tonn af rafeldsneyti (metanóli) ári en til samanburðar er framleiðslan í Svartsengi 4 þúsund tonn á ári. Er þetta samstarfsverkefni CRI, norska ríkisorkufyrirtækisins Statkraft og kís­il­málm­fram­leiðand­ans Finnfjord AS.

„Eftir þetta höfðu ýmsar fjármálastofnanir samband og lýstu yfir áhuga á að vinna með okkur. Áður höfðu fjárfestingarsjóðir og stór iðnfyrirtæki lýst yfir áhuga á að því að fjárfesta í félaginu. Í nóvember ákváðum við að semja við breskt ráðgjafafyrirtæki um að greina markaðsmöguleika okkar, sem og að hafa umsjón með hugsanlegri hlutafjáraukningu.

Eftir að hafa skoðað þá ótrúlegu verðþróun sem hefur átt sér stað á Euronext Growth markaðnum í Osló og hvað ESG-fyrirtæki eins og CRI hafa átt auðvelt með að ná í fjármagn þá hefur stjórn félagsins óskað eftir heimild frá hluthöfum til að skrá félagið á markað,” segir Ingólfur Guðmundsson, forstjóri Carbon Recycling en hluthafafundurinn verður miðvikudaginn 17. mars. Hann segir að rætt hafi verið við norska bankann SP1 Markets um að taka verkið að sér. Bankinn hafi annast skráningu margra félaga á þennan markað með góðum árangri.

„Tímalínan sem við vinnum eftir er að klára allan undirbúning fyrir páska og eftir það mun taka þrjár til fimm vikur að ljúka við skráninguna. Ef markaðsaðstæður verða jafngóðar og þær eru nú þá sé ég fyrir mér að búið verði að skrá félagið í kringum mánaðamótin apríl maí.”

Spurður hvort íslenska Kauphöllin hafi komið til greina svarar Ingólfur: „Jú við höfum skoðað hana, sem og First North markaðinn í Stokkhólmi. Það er svo sem ekkert útilokað í þessum efnum en eins og staðan er núna þá teljum við Euronext Growth markaðinn í Osló besta kostinn. Norðmenn eru mjög sterkir í þessum grænu áherslum og mikil eftirspurn eftir félögum eins og okkar.”

Verulegt tjón í Svartsengi vegna skjálftanna

Rekstur Carbon Recycling hefur verið þungur síðustu ár. Árið 2019 nam tapið 935 milljónum króna. Ingólfur segir að félagið hafi staðið frammi fyrir ýmsum áskorunum í fyrra vegna heimsfaraldursins, sem hafi haft áhrif á starfsemi félagsins í Kína. Þegar öllu sé á botninn hvolft hafi reksturinn þó gengið nokkuð vel á árinu 2020 og sérstaklega eftir að félagið fór að hafa tekjur af hönnun og smíði búnaðar fyrir verksmiðju, sem verið er að byggja í Kína. Hann segir að rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir (EBIDTA) hafi í fyrsta skiptið verið jákvæður og horfurnar mjög góðar, fjölmörg verkefni séu í pípunum.

„Að þessu sögðu þá erum við því miður að verða fyrir verulegu tjóni vegna jarðskjálftanna á Suðurnesjum. Verksmiðjan í Svartsengi hefur skemmst mikið og ekki er útlit fyrir að við getum framleitt metanól þar alveg á næstunni,” segir Ingólfur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér