Lággjaldaflugfélagið EasyJet vill í samstarfi við bandarískt sprotafyrirtæki þróa flugvél sem er að fullu rafknúin á næstu tíu árum. Bandaríska fyrirtækið Wright Electric var stofnað í fyrra af hópi verkfræðinga og rafhlöðuefnafræðingum. Félagið stefnir að því að hanna flugvél sem getur flogið um 539 kílómetra — sem myndi dekka um 20 prósent allra ferða EasyJet. Frá þessu er greint í frétt Bloomberg .

Ef að flugvélar yrðu knúnar áfram með rafhlöðum myndi kostnaður flugfélaga minnka umtalsvert, þar sem að stærstu hluti kostnaðar fer í eldsneyti. Þar sem að EasyJet flýgur iðulega stuttar vegalengdir eru þeir í sérstaklega góðri aðstöðu að nýta sér þjónustuna — þegar hún verður tilbúin. Meðalflugtími EasyJet eru einungis tvær klukkustundir. Að því undanskildu að þessi nýjung gæti sparað flugfélögum fúlgu fjár, þá verður minni útblástur gróðurhúsalofttegunda, og enn fremur yrðu flugvélarnar hljóðlátari.

Carolyn McCall, forstjóri EasyJet, sagði að líkt eins og bifreiðaframleiðendur þá munu flugfélög leita til tækninýjunga til þess að minnka umhverfisáhrif. „Í fyrsta skiptið þá getum við séð fyrir okkur framtíðina án flugvélaeldsneytis og við erum mjög spennt  yfir því. Það er ekki spurning um hvort — heldur hvenær,“ bætti hún við.