Stefna sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er að setja ríkisjarðir sem losna fremur í ábúð og leigu en að selja þær. Ráðherra hyggst almennt ekki selja eyðijarðir í eigu ríkisins. Þetta kemur fram í skriflegu svari Jóns Bjarnasonar við fyrirspurn Birkis Jóns Jónssonar, alþingismanns, um fjölda jarða í eigu ríkisins sem eru nýtanlegar til ábúðar.

Í svarinu segir að í lok árs 2007 hafi 354 lögbýli verið skráð á forræði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. 48 lögbýli séu á forræði annarra ráðuneyta. Skráð lögbýli í ábúð eru 155, en lögbýli er skráð í eyði hafi búrekstur ekki verið stundaður þar í fimm ár eða lengur.

Ráðuneytið hefur aðeins uppi áform um að auglýsa eina jörð til sölu á frjálsum markaði á þessu ári, að því er fram kemur í svarinu.