Íslenskt útibú breska fjártæknifyrirtækisins XTX markets hefur stefnt íslenska ríkinu fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur vegna afskráningar af virðisaukaskattskrá. Félagið fékk skráningu án athugasemda af hálfu Skattsins en var síðan, ári eftir skráningu, afskráð afturvirkt eftir að hafa sótt um endurgreiðslu.

Starfsemi XTX Markets felur í sér viðskipti með verðbréf með aðstoð ofurtölva. Félagið notast þannig við slíkar tölvur sem keyra algrím til greina mikið magn af upplýsingum og spá þannig fyrir um framtíðarvirði á mörgum ólíkum eignum.  Þar sem tölvubúnaðurinn krefst mikillar orku ákvað félagið að hýsa þann hluta rekstrarins hér á landi og flutti hér inn mikið magn af búnaði til að keyra gagnaver. Útibúið seldi síðan þjónustu gagnaversins út til breska félagsins.

Ágreining XTX við yfirvöld má rekja í úrskurði yfirskattsnefndar frá 2021, en þar er rakið samskipti fyrirtækisins við Skattinn árið 2019 vegna endurgreiðslu á virðisaukaskatti. Fyrirtækið var þá byrjað með gagnavinnslu hér á landi og sóttist eftir endurgreiðslu vegna seldrar þjónustu. Samskiptin varðaði það hvernig best ætti að hátta endurgreiðslu á umræddum virðisaukaskatti og eftir samskiptin var ákveðið að koma á fót útibúi hér á landi sem fékkst skráð í fyrirtækjaskrá. Í júní 2019 féllst Skatturinn á að félagið fengi skráningu í virðisaukaskattskrá eftir athugun af þeirra hálfu og gagnaskil af hálfu XTX. Þann 7. febrúar 2020, eftir að félagið sóttist eftir endurgreiðslu skatts, greindi Skatturinn frá því að hafnað yrði endurgreiðslu, sem og að útibú XTX Markets yrði afskráð af virðisaukaskattskrá og það afturvirkt frá enda ársins 2019. Byggði umrædd ákvörðun ríkisskattstjóra um afskráningu á því að ekki væri um að ræða sölu á virðisaukaskattsskyldri þjónustu til breska XTX Markets heldur afhendingu þjónustu til eigin nota innan fyrirtækisins.

Þessu andmælti fyrirtækið en það breytti litlu. Samkvæmt úrskurði Skattsins eru útibú erlendra félaga almennt ekki talin til sjálfstæðra lögaðila heldur einungis deild innan erlenda félagsins, nema þegar slíkt útibú hefur fasta starfstöð. Samkvæmt reglum um fasta starfstöð þá fellur ekki þar undir starfsemi sem telst einungis vinna í þágu eigin félags í gegnum gagnaver líkt og hér um ræðir. Hvar útibúið var einungis að þjónusta móðurfélagið með vinnslu upplýsinganna þá væri ekki um fasta starfstöð að ræða heldur deild innan fyrirtækis sem ekki gæti, eðli málsins samkvæmt, átt í viðskiptum við sjálft sig og ætti þannig ekki rétt á skráningu.

Féllst YSKN á afstöðu Skattsins í málinu hvað varðaði tímabilið frá afskráningu í lok árs 2019 en taldi félagið þó eiga rétt á endurgreiðslu fyrir tímabilið frá upphaflegu skráningu í júní 2019 til lok árs 2019.

Aðalmeðferð málsins fer fram 3. nóvember næst komandi.