Apple-umboðið hyggst stefna ríkinu vegna flokkunar tollstjóra á Ipod Touch sem tónlistarspilara en ekki lófatölvu en háir tollar eru á tónlistarspilurum en engir á lófatölvum. Frá þessu greinir Fréttablaðið í dag og segir að ríkistollanefnd hafi flokkað Ipod Touch sem lófatölvu en hnekki þó ekki ákvörðun tollstjóra.

Blaðið hefur eftir lögmanni Félags atvinnurekenda, sem rekur málið, að fyrir vikið séu Ipod Touch dýrari hérlendis en annars staðar og neytendur kaupi vöruna því erlendis. Hann segir tollstjóra beita huglægu mati sem byggi á markaðssetningu tækisins. Þá segir hann brauðristar til með innbyggðum mp3-spilara og spyr hvort þær eigi að flokka sem tónlistarspilara.