*

fimmtudagur, 4. júní 2020
Erlent 18. október 2019 08:30

Stefna á samstarf við JetBlue

Hlutabréf í Norwegian ruku upp eftir að tilkynnt var um að félagið hafi hafið viðræður við JetBlue um samstarf vestanhafs.

Ritstjórn
Norwegian er þriðja stæsta lágfargjaldaflugfélag Evrópu.
epa

Norska lágfargjaldaflugfélagið Norwegian og bandaíska flugfélagið JetBlue Airways greindu frá því í gær að þau hefðu hafið viðræður samstarf í sín á milli sem myndi gera farþegum Norwegian, á leið yfir Atlantshafið, kleift að halda áfram til annarra áfangastaða í Bandaríkjunum með JetBlue í einni bókun. Vonast félögin til að þetta muni fjölga farþegum og ýta upp meðalfargjöldum. Þetta kemur fram í frétt Reuters.

Í sameiginlegri tilkynningu sem félögin sendu frá sér kemur fram að ef að samstarfinu verður muni það hefjast um mitt næsta ár.

Eins og áður hefur verið fjallað um er Norwegian þriðja stærsta lágfargjaldaflugfélag Evrópu. Óhætt er að segja að félagið hafi hrist upp í markaðnum yfir Atlantshafið á síðustu árum og ýtt niður meðalfargjöldum sem meðal annars bæði Icelandair og WOW hafa og fundu fyrir. 

Samstarf Norwegian við JetBlue mun tengja flug félagsins frá um 100 borgum í Bandaríkjunum við áfangastaði Norwegian í New York, Boston og Fort Lauderdale en norska félagið flýgur til um 20 áfangastaða frá borgunum þremur. 

Norwegian á nú þegar í álíka samstarfi í Evrópu við breska lágfargjaldaflugfélagið easyJet en hefur þangað til núna ekki átt samstarfsaðila hinu megin við hafið. Hlutabréf Norwegian hækkuðu um 10% skömmu eftir að tilkynning um viðræðurnar barst en bréf félagsins gáfu þó eftir þegar líða tók á daginn og nam hækkun dagsins á endanum 3,8%. 

Stikkorð: Norwegian JetBlue