*

þriðjudagur, 20. ágúst 2019
Innlent 5. júlí 2018 06:28

Stefna Seðlabankanum og ríkinu

Coldrock Investments hefur stefnt Seðlabankanum og ríkinu og vill að höft á aflandskrónur hér á landi verði afnumin.

Ingvar Haraldsson
Haraldur Guðjónsson

Fjárfestingarfélagið Coldrock Investments Ltd., skráð á Möltu, hefur stefnt Seðlabanka Íslands og fjármála- og efnahagsráðuneytinu og vill að höft á aflandskrónur hér á landi verði afnumin.

Coldrock er í eigu systkinanna Gunnars Þórs, Guðnýjar Eddu, Halldórs Páls og Eggerts Árna Gíslabarna. Þau eiga meðal annars grænmetis- og ávaxtainnflytjandann Mata, Síld og Fisk, Matfugl og Salathúsið, að hluta til í gegnum Coldrock.

Aðalkrafa Coldrock er að höftin á aflandskrónueignir félagsins verði afnumin að fullu. Félagið segir höftin andstæð meðalhófsreglu enda sé efnahagsástand hér á landi allt annað en þegar gjaldeyrishöftin voru fyrst innleidd árið 2008. Þá séu við lýði innflæðishöft á ákveðnar fjárfestingar hér á landi, sem hafi það að markmiði að draga úr innflæði gjaldeyris til landsins. Því standist vart að hafa einnig við lýði takmarkanir á útflæði gjaldeyris úr landi. Varakrafa Coldrock felst í að heimilt verði að fjárfesta aflandskrónueignum í innlendum verðbréfum, þar með talið hlutabréfum, enda hafi slíkt ekki áhrif á gjaldeyrisflæði til og frá Íslandi. Í dag er heimilt að fjárfesta aflandskrónum í innstæðubréfum hjá Seðlabanka Íslands sem bera 0,5% vexti eða í ríkisvíxlum. 

Aflandskrónur voru krónueignir sem voru í eigu eða umsjá erlendra aðila þegar gjaldeyrishöftin voru innleidd í október 2008 og gengu stundum undir nafninu snjóhengjan. Aflandskrónueignirnar námu 565 milljörðum króna í kjölfar bankahrunsins árið 2008 en eru í dag taldar nema tæplega 90 milljörðum króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.