Í morgun var tilkynnt um fyrirhugaða skráningu líftæknilyfjafyrirtækisins Alvotech í bandarísku kauphöll Nasdaq í gegnum samruna við sérhæfða yfirtökufélagsið (e. SPAC) Oaktree Acquisition Corp. II. Í útboðsgögnum, sem birt eru á vef Verðbréfaeftirlits Bandaríkjanna (SEC), kemur fram að einnig sé stefnt að skráningu hlutabréf sameiginlegs félags á First North-markaðinn á Íslandi.

Ef þau áform ganga eftir þá verður Alvotech sjöunda félagið á First North-markaðnum hér á landi. Flugfélagið Play og tölvuleikjafyrirtækið Solid Clouds voru bæði skráð á vaxtamarkaðinn í sumar.

Samruninn og viðskipti honum tengdum munu skila Alvotech um 450 milljónum Bandaríkjadala, eða tæpum 60 milljörðum íslenskra króna, í auknu fjármagni, sem skiptist í 250 milljóna dala innspýtingu reiðufjár og yfir 150 milljónir dala með beinni hlutafjáraukningu frá alþjóðlegum fjárfestum og íslenskum fjárfesta, leiddum af Arion banka Landsbankanum og Arctica Finance.

Sjá einnig: Al­vot­ech sækir 60 milljarða og fer á markað

Fram kom að núverandi hluthafar Alvotech muni eiga rúmlega 80% í sameinuðu félagi, hluthafar Oaktree Acquisition Corp. II um 11%, og fjárfestar sem koma með nýtt fé inn í tengslum við sameininguna um 7% hlut í félaginu við lokun viðskiptanna (að því gefnu að að enginn af núverandi hluthöfum Oaktree Acquisition Corp. II nýti innlausnarrétt sinn).