Til stendur að kanna möguleika á tvíhliða skráningu Íslandsbanka á markaði á Íslandi og annarsstaðar á Norðurlöndunum. Morgunblaðið greinir frá þessu í dag. Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis, sem á 95% hlut í Íslandsbanka, staðfesti þetta við VB.is í morgun.

„Þetta er eitt af því sem kom fram á fundinum sem við héldum með okkar kröfuhöfum í New York, að samhliða því að finna fjárfesta munum við undirbúa tvöfalda skráningu,“ segir Steinunn H. Guðbjartsdóttir.  Fundurinn sem Steinunn vísar í var haldinn á þriðjudaginn.

Hún segir að þótt bankinn yrði skráður á markað myndi það alls ekki koma í veg fyrir að samið yrði við fjárfesta um kaup á stærri hlut.