Félagið Virgin Galactic Holdings Inc., sem Richard Branson stofnaði, stefnir enn á að hefja brátt sölu til ferðamanna á ferðum út í geim. Gert er ráð fyrir að einn miði í slíka ferð kosti að lágmarki um 250 þúsund dollara, eða um 32 milljónir króna.

Hlutabréf félagsins hafa hækkað mikið undanfarnar vikur, þar sem að fjárfestar sjá mikil tækifæri í því að fyrirtækið er það fyrsta til að stíga stórt skref inn á þennan geimferðamannamarkað og er félagið nú metið á hvorki meira né minn en 7 milljarða dollara.

Upphaflega hugðist Virgin Galactic fara í sína fyrstu geimferð í júní á þessu ári og ætlaði Branson að vera meðal farþega í fluginu. Félagið sér hins vegar ekki fram á það nú að sá tímarammi standist, en stefnir enn á að fyrsta ferðin verði farin á þessu ári.