Fjárfestahópurinn Loftleiðir Cabo Verde hefur stefnt ríkissjóði Grænhöfðaeyja fyrir Alþjóðagerðardóminn (ICA) vegna ágreinings sem tengist flugfélaginu Cabo Verde Airlines (CVA), sem var þjóðnýtt í sumar. Túristi greinir frá þessu.

Loftleiðir Cabo Verde átti 51% hlut í CVA á móti 39% hlut stjórnvalda Grænhöfðaeyja og 10% hlut starfsmanna flugfélagsins. Loftleiðir, dótturfélag Icelandair, fer með 36%% hlut í Loftleiðum Cabo Verde en meðal annarra hluthafa er Björgólfur Jóhannsson, fyrrum forstjóri Icelandair.

Rekstur CVA stöðvaðist í byrjun síðasta árs vegna áhrifa heimsfaraldursins. Í mars stóð til að ríkissjóður Grænhöfðaeyja myndi veita flugfélaginu lán upp á á 16 milljónir evra, eða sem nemur um 2,5 milljörðum króna, með fyrirvörum um samkomulag milli hluthafa og eins áttu kröfuhafar að fella niður hluta af skuldum og lengja greiðslufresti. Icelandair svaraði þó fyrirspurn Túrista á sínum tíma að ekki stæði til að setja meira fé í rekstur Cabo Verde Airlines.

Sjá einnig: Töpuðu 946 milljónum á Grænhöfðaeyjum

Stjórnvöld á Grænhöfðaeyjum nefndu það meðal ástæðna fyrir þjóðnýtingu á flugfélaginu í sumar að hún hefði verið nauðsynleg sökum þess að íslensku hluthafarnir stóðu ekki við samning um að leggja flugfélaginu til 30 milljónir dala, eða um 4 milljarða króna.

Forsvarsmenn Loftleiða hafna þessum málatilbúnaði og hafa því brugðist við með að stefna ríkissjóði Grænhöfðaeyja fyrir Alþjóðagerðardóminn, samkvæmt frétt CH-Aviation .

Samkvæmt svörum Loftleiða við fyrirspurn Túrista, þá snýst ágreiningurinn um meintar vanefndir ríkisstjórnar Grænhöfðaeyja á samkomulagi um skuldauppgjör vegna einkavæðingarinnar á sínum tíma en ekki um þjóðnýtinguna sjálfa.

Loftleiðir Cabo Verde og stjórnvöld á Grænhöfðaeyjum deila einnig um afnotarétt á 31 árs gamalli Boeing 757 þotu fyrir dómstólum þar í landi. Þotan bar heitið Eyjafjallajökull þegar hún var í flota Icelandair. Flugvélin er nú í eigu Loftleiða og hefur síðustu ár verið nýtt af CVA á milli heimsálfa. Loftleiðir vilja fá þotuna aftur, nú eftir að búið er að þjóðnýta flugfélagið. Stjórnvöld á Grænhöfðaeyjum eru þó á öðru máli.