Alls voru 37 sveitarsjóðir (A hluti) reknir með halla á árinu 2008 og bárust eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga greinargerðir þar að lútandi. Þá lögðu 34 sveitarfélög fjárhagsáætlun ársins 2009 fram með halla. Sveitarfélögin hafa frest til 15. júní næst komandi til að skila ársreikningi til samgönguráðuneytisins. Alls eru 77 sveitarfélög á landinu samkvæmt vef sambands íslenskra sveitarfélaga. Þetta kemur fram í svari Kristjáns Möller samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn Þórs Saaris um erfiða fjárhagsstöðu sveitarfélaga sem lagt var fram á Alþingi á fimmtudaginn í síðustu viku. Þar kemur einnig fram að alls hafa tíu sveitarfélög verið til sérstakrar skoðunar af hálfu eftirlitsnefndar. Það eru sveitarfélögin Kópavogsbær, Hafnarfjarðarbær, Sveitarfélagið Álftanes, Reykjanesbær, Sandgerðisbær, Borgarbyggð, Grundarfjarðarbær, Bolungarvík, Fjarðabyggð og Fljótsdalshérað. Bolungarvík og Álftanes hafa þurft á sérstakri eftirlitsmeðferð að halda og fjárhagslegum stuðningi. . Nefndin hefur sent Kópavogsbæ, Hafnarfjarðarbæ, Reykjanesbæ, Borgarbyggð, Grundarfjarðarbæ, Fjarðabyggð og Fljótsdalshéraði bréf og gert athugasemdir um skuldsetningu þeirra og óskað jafnframt eftir því að fá sendar ársfjórðungslegar upplýsingar úr bókhaldi þeirra.