Þrír starfsmenn Íslandsbanka sem skilanefnd Glitnis hefur höfðað skaðabótamál gegn voru settir í ótímabundið leyfi frá störfum í síðustu viku.

Starfsmennirnir sem um ræðir eru Rósant Már Torfason, Magnús Arnar Arngrímsson og Guðný Sigurðardóttir. Skilanefnd Glitnis, sem er stærsti eigandi Íslandsbanka, stefndi starfsmönnunum þremur, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Pálma Haraldssyni og Lárusi Welding, fyrrum forstjóra bankans, til greiðslu sex milljarða króna í skaðabætur fyrir fall Glitnis.

Samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka voru stefnurnar birtar starfsmönnunum í síðustu viku. Þær verða þingfestar fyrir dómi síðar í aprílmánuði. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að þau verði í leyfi á meðan að málareksturinn standi yfir, bæði vegna þess að óviðeigandi þyki að þau starfi hjá bankanum á þeim tíma og til að gefa þeim tækifæri til gagnaöflunar. Ekki liggur fyrir hvort að leyfið sé launalaust eða ekki.

DV greindi frá því í morgun að málareksturinn byggir á því að starfsmennirnir þrír hafi ásamt tveimur af helstu eigendum bankans, þeim Jóni Ásgeiri og Pálma, og Lárusi Welding valdið bankanum skaða með aðgerðum sínum í aðdraganda falls Glitnis. Stefnan byggir meðal annars á rannsókn fjármálarannsóknarfyrirtækisins Kroll.

Ekki hefur náðst í Magnús Arnar Arngrímsson né Rósant Már Torfason í dag.