Helgi Vilhjálmsson, kenndur við Góu, sem á og rekur einnig KFC og Pizza hut, stefnir á að hér á landi verði 5 Pizza Hut staðir.

Þegar Helgi keypti rekstur pítsukeðjunnar í mars 2015 rak fyrirtækið einungis einn veitingastað, í Smáralind. Þetta kemur fram í DV .

Tilkynnt um tvo nýja staði

Í síðustu viku var hins vegar tilkynnt um að nýr staður yrði opnaður á Rósaselstorgi á nánd við Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem og að þriðji staðurinn yrði opnaður í verslunarkjarnanum í Setbergi í Hafnarfirði.

Í viðtali við DV játaði hann því að staðurinn yrði í fyrrum húsnæði Snælands video sem verið hefur í verslunarkjarnanum. „Þetta er allt að koma enda er plássið komið og við förum að byrja,“ segir Helgi sem ætlar að opna fleiri staði.

Háskólamenn sem snúast hægt

„Ég held að það sé engin spurning að þeir verða fleiri. Eigum við ekki að horfa fram á við. Ef það eru 100 pítsustaðir á Íslandi þá hljóta að mega vera fimm Pizza Hut-staðir. Ég veit ekki nákvæmlega hvenær við opnum enda er þetta hjá ungum mönnum úr háskólanum sem snúast nú fimm sinnum hægar en maður gerði. Þeir sem stjórna þessu úti í alheimi.“

Er ljóst að honum finnist ganga seint hjá starfsmönnum Pizza Hut í Bandaríkjunum sem þurfa að samþykkja opnun nýs veitingastaðar.

Gengur hægt að byggja nýjan Landspítala

„Þetta tekur allt svo langan tíma í dag. Hvort sem menn vilja byggja nýjan Landspítala eða annað. Það er sama hvað maður ætlar að gera,“ segir Helgi, sem neitar að staðsetningin miðist við að laða erlenda ferðamenn á leið um Reykjanesbrautina að staðnum.

Verslunarmiðstöðin Setberg er staðsett gegnt bensínstöð N1 við hringtorgið þar sem umferðin frá Keflavík flæðir inn í umferðina í Hafnarfirði.