Í viðtali við Viðskiptablaðið í dag segist Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra stefna að endurskoðun allrar neytendalöggjafar í landinu.  "Eins og ég nefndi áðan þá eru neytendamálin einn þeirra þátta sem ég ætla mér að efla mjög verulega í þessu ráðuneyti. Ég ætla í fyrsta lagi að endurskoða alla neytendalöggjöf í landinu með það að markmiði að þeir verði mun upplýstari um lagaleg réttindi sín," segir Björgvin í Viðskiptablaðinu.

Í viðtalinu bendir blaðamaður á að margir eru á þeirri skoðun að staða neytenda á fjármálamarkaðnum sé afar veik. Stimpilgjöld, uppgreiðslugjöld og fleira til gerir það að verkum að töluverðir tálmar eru fyrir því að viðskiptavinur bankanna fari frá einum banka til annars í leit að hagstæðustu kjörunum. Það er á kveðið á það í stjórnarsáttmálanum að stimpilgjald verði lagt niður þegar aðstæður henta en má búast við því að Björgvin beiti sér frekar í þessu máli?

Þessu svarar Björgvin þannig: "Þessum málum hefur nefnilega lítið verið sinnt að hálfu stjórnvalda. Í þessu samhengi er ég meðvitaður að neytendur á bankamarkaði þurfa að búa við fráleitar og óþolandi viðskiptahindranir. Það á að fella niður stimpilgjöldin og vonandi verða fleiri mál skoðuð því samhengi. Ég legg hinsvegar áherslu á að það þarf að gera skurk í neytendamálum."

Björgin bendir á í þessu samhengi að það hafi verið ákveðin pólitísk yfirlýsing að gera viðskiptaráðuneytið sjálfstætt á ný. Það á efla mjög verulega og það fær til sín aukin verkefni á ýmsum sviðum. Ráðherrann vill þó ekki fara nánar út í þau mál enda segir útfærsluna enn vera til staðar og nánari tíðinda sé að vænta á næstum mánuðum.

Sjá nánar viðtal við viðskiptaráðherra í Viðskiptablaðinu í dag.