Frjálslyndi flokkurinn hefur engin önnur plön en að bjóða fram til sveitarstjórnarkosninga að ári, að sögn Guðjóns A. Kristjánssonar, formanns Frjálslynda flokksins.

Miðstjórn flokksins ákvað á fundi sínum í lok apríl að halda áfram starfi flokksins og „takast á við þær fjárskuldbindingar sem við sitjum uppi með eftir kosningar," segir Guðjón í samtali við Viðskiptablaðið.

Guðjón var að pakka niður á þingmanna skrifstofu sinni við Austurstræti í Reykjavík þegar Viðskiptablaðið náði tali af honum fyrr í dag. Flokkurinn beið afhroð í þingkosningunum og náði sem kunnugt er engum manni inn á þing. Þar með er tíu ára þingferli Guðjóns lokið - í bili að minnsta kosti.

Mikil innbyrðis átök hafa fylgt Frjálslynda flokknum undanfarin ár og nú síðast lýsti Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi F-listans og óháðra, því yfir að hann hefði sagt sig úr flokknum. Það er í annað sinn sem Ólafur segir sig úr flokknum.

Guðjón segir aðspurður að Ólafur hafi ekki greint sér persónulega frá ástæðu úrsagnarinnar. „Ég átta mig ekki á hans vegferð," segir Guðjón en kveðst hafa lesið það í fjölmiðlum að Ólafur F. hefði m.a. verið ósáttur við atvinnustefnu Frjálslynda flokksins í þingkosningunum og að flokkurinn væri hlynntur álverunum á Bakka og í Helguvík í ljósi efnahagsástandsins.

Nú þegar Ólafur er farinn úr Frjálslynda flokknum á hann eftir tvo fulltrúa í sveitarstjórnum landsins, einn í Grindavík og annan á Ísafirði.

Hefur ekki áhyggjur af fjármálum flokksins

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, ýjaði að því í sjónvarpsþætti að kosningum loknum að hann gæti vel hugsað sér að ráða Guðjón til starfa í sjávarútvegsráðuneytinu. „Ég hef ekkert heyrt meira af því skal ég segja þér," sagði Guðjón þegar blaðamaður spurði út í það. „Mér hefur enda sýnst að ríkisstjórnin hafi haft mikið að gera við að ná saman áætlum sínum og stefnumálum," bætti Guðjón við.

Guðjón segir að flokkurinn hafi varið rúmur þremur milljónum í kosningabaráttuna í apríl og að hann skuldi í kringum fimm miiljónir. Hann á ekki von á öðru en að hægt verði að greiða niður þær skuldir.

Um sextán hundruð manns séu á félagsskrá flokksins. „Þeir þurfa ekki að leggja fram háar fjárhæðir til að brúa þessar fimm milljónir," segir hann. Skrifstofa flokksins hefur verið lögð niður sem og öll launuð störf hjá flokknum. „Það sem verður gert verður unnið í sjálfboðavinnu," segir hann.

Hann kveðst að lokum yfirgefa stjórnmálin með söknuði. Flokkurinn hafi haft málefnalegan málflutning í kosningabaráttunni en það hafi ekki náðst í gegn.