Þórey Vilhjálmsdóttir, aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra, hefur falið lögmanni sínum að birta blaðamönnum DV, þeim Jóni Bjarka Magnússyni og Jóhanni Páli Jóhannssyni, stefnu vegna ærumeiðandi ummæla og grófra aðdróttana í hennar garð.

Segir í fréttatilkynningu að ástæðan sé umfjöllun í DV þann 20. júní sl. þar sem því hafi ranglega verið haldið fram og slegið upp að Þórey hefði „lekið” trúnaðarupplýsingum um hælisleitendur til fjölmiðla og jafnframt að hún væri „starfsmaður B” skv. úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í hinu svokallaða lekamáli.

Einnig segir Þórey að því sé því ranglega haldið fram að hún hafi átt í samskiptum við ákveðna fjölmiðla og að hún hefði leitað að áðurnefndum trúnaðarupplýsingum í tölvu sinni. Segir hún að allt séu þetta grófar og tilhæfulausar aðdróttanir sem feli í sér að hún hafi gerst sek um refsivert athæfi og alvarlegt brot í starfi.

Í fréttatilkynningu Þóreyjar segir að lokum:

„Mín upplifun er sú að lengi hafi verið unnið að því af hálfu blaðamanna DV að draga upp þá mynd og síðar fullyrða með beinum hætti að ég væri sek um trúnaðarbrest og leka til fjölmiðla. Ýjað var að því í nokkra mánuði að ég hafi lekið trúnaðargögnum þar til að blaðamennirnir bitu höfuðið af skömminni með því að birta umræddar ásakanir sem sannaðar staðhæfingar í blaðinu þann 20. júní sl. Með þessu hafa þeir vegið alvarlega að mannorði mínu og æru og valdið mér og fjölskyldu minni ómældu hugarangri.

Stór hluti af starfi mínu sem aðstoðarmaður felst í samskiptum við fjölmiðla sem í langflestum tilvikum hafa verið góð og málefnaleg nema í þessu tilfelli. Það er von mín að málshöfðun þessi hafi einnig þau áhrif að bæta vinnubrögð fjölmiðilsins og umræddra starfsmanna í framtíðinni.

Lögfræðikostnað minn greiði ég úr eigin vasa en þær miskabætur sem ég fer fram á mun ég gefa til góðgerðarmála.“