Sjóðsstýringarfyrirtækið Stefnir, dótturfélag Arion banka, hefur gefið út höfuðstólstryggt skuldabréf fyrir tæplega 700 milljónir króna sem er tengt við gengisþróun erlendra hlutabréfavísitalna. Greint er frá þessu í Morgunblaðinu .

Um fyrstu slíku útgáfuna frá hruni bankakerfisins haustið 2008 mun vera að ræða. Að því gefnu að undirliggjandi hlutabréfavísitölur hækki munu fjárfestar fá greitt til baka í bæði evrum og krónum.

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins er skuldabréfið gefið út samkvæmt undanþáguheimild Seðlabankans frá lögum og reglum um gjaldeyrismál enda er ekki talið að útgáfa skuldabréfsins muni hafa í för með sér aukið útflæði gjaldeyris.