*

þriðjudagur, 20. ágúst 2019
Innlent 11. september 2017 07:19

Stefnir í 8,8 milljónir farþega

Isavia gerir ráð fyrir að heildarfjöldi farþega sem fara um Keflavíkurflugvöll á þessu ári verði um 8,8 milljónir.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Isavia býst við að heildarfjöldi farþega sem fara um Keflavíkurflugvöll á þessu ári verði um 8,8 milljónir. Yrði það 28 prósenta aukning á milli ára. Að sögn Isavia er skipting farþega í samræmi við spár að því er kemur fram í umfjöllun Morgunblaðsins um málið. Alls er um þriðjungur farþega flugvallarins tengifarþegar en aðrir skiptast í komu- og brottfarafarþega.

Það sem liðið er af þessu ári hafa tæplega sex milljónir manns farið um flugvöllin sem er 32,4 prósentum meira en á sama tíma í fyrra. Á fyrstu átta mánuðum ársins í fyrra fjölgaði farþegum um 32,4 prósent. Annasamasti tíminn á flugvellinum eru sumarmánuðirnir, frá júní og út ágúst. Í fyrsta sinn fór yfir ein milljón farþega um flugvöllinn á einum mánuði bæði í júlí og svo aftur í ágúst. 

Stærsti dagur ársins á Keflavíkurflugvelli var 6. ágúst þegar 40.147 farþegar fóru um völlinn, en eru það 19% fleiri farþegar en á stærsta deginum í fyrrasumar. Í vetur er einnig gert ráð fyrir enn frekari fjölgun. Í svari Isavia kemur fram að gert sé ráð fyrir því að sætum fjölgi á tímabilinu nóvember til og með mars um 830 þúsund. Heildarframboð flugsæta í vetur til og frá Íslandi verður því 3,8 milljónir og í heildina munu fimmtán flugfélög fljúga til og frá Keflavíkurflugvelli til 69 áfangastaða.