Allir viðskiptavinir sem bættust við íslenska farsímamarkaðinn á fyrri hluta árs fóru til Nova. Markaðshlutdeild Nova og Vodafone verður jöfn um áramót og Síminn bætir við sig í fyrsta sinn í mörg ár.

Þetta kemur fram í úttekt Fréttablaðsins um fjarskiptamarkaðinn í dag þar sem vitnað er í nýja tölfræðiskýrslu Póst- og fjarskiptastofnunnar (PFS) um íslenska fjarskiptamarkaðinn á fyrri helmingi ársins 2012 sem birt var í gær.

Fram kemur að Nova var með 6.416 færri viðskiptavini í farsímaþjónustu en Vodafone um mitt þetta ár. Á fyrri helmingi þessa árs bætti Nova við sig 7.229 viðskiptavinum en á sama tíma fjölgaði þeim um 257 hjá Vodafone.

Í úttektinni segir að haldi þessi þróun áfram á síðari hluta ársins 2012 verður Nova orðið næststærsta farsímafyrirtæki landsins í árslok á eftir Símanum. Á síðasta ári bættust 7.046 áskriftir við íslenska farsímamarkaðinn eftir því sem kemur fram í skýrslunni tók Nova alla þá viðskiptavini til sín. Til viðbótar tapaði Tal rúmlega þúsund viðskiptavinum sem skiptast nokkuð bróðurlega á milli annarra símafyrirtækja.