Flugleiðir gera ráð fyrir betri afkomu af starfseminni á þessu ári en árið 2003. Því bendir allt til þess að 2004 verði annað besta rekstrarár í sögu félagsins. Rekstrartekjur Flugleiða fyrstu níu mánuði ársins uxu um 14% frá fyrra ári og voru tæplega 34 milljarðar króna. Rekstrargjöld fyrstu níu mánuði ársins voru hins vegar liðlega 31 milljarður króna og hækkuðu einnig um 14% frá fyrra ári. Hagnaður fyrir vexti, skatta, afskriftir og rekstrarleigu flugvéla í reikningnum er 5,5 milljarðar króna á móti 5,2 milljörðum króna fyrstu níu mánuði 2003.

Þetta er svokallaður EBITDAR mælikvarði, sem víða er lagður á rekstur flugfélaga og mælir fjármunamyndun í rekstri þeirra óháð því hvernig flugvélar eru fjármagnaðar. Fjármunamyndun í rekstrinum fyrstu níu mánuði ársins heldur áfram að vera sterk og veltufé frá rekstri fyrstu níu mánuði ársins var 5,1 milljarður króna en var 4,8 milljarðar króna á sama tímabili 2003. Handbært fé í lok tímabilsins er um 10 milljarðar króna í samanburði við liðlega 8 milljarða króna á sama tíma í fyrra segir í tilkynningu félagsins.