Að sögn Þórðar Friðjónssonar, forstjóra Kauphallar Íslands, lítur vel út með nýskráningar í Kauphöllina á þessu ári. Þórður sagðist gera ráð fyrir fimm til sex nýskráningum á árinu en nú þegar hafa nokkur félög opinberað vilja sinn. Það er meira en verið hefur á undanförnum árum.

Ljóst er að Færeyingar halda áfram að horfa til íslensku Kauphallarinnar og hafa tvö félög, Føroya banki og Sparikassinn, lýst yfir skráningaráformum sínum. Sömuleiðis er þess vænst að Atlantic Airways ljúki þeirri skráningavinnu sem félagið var með í gangi á síðasta ári en frestaði í kjölfar flugslyss hjá einni vél félagsins. Bæði Føroya banki og Atlantic Airways eru í eigu færeyska ríkisins.

Þá er þess vænst að Síminn verði skráður síðar á árinu en samkvæmt þeim skilmálum sem settir voru við sölu hans var kveðið á um skráningu Símans á almennan hlutabréfamarkað fyrir árslok. Þá hafa stjórnendur Atorku Group gefið í skyn að Promens verði skráð í kauphöllina á þessu ári en það yrði þá líklega eitt stærsta ef ekki stærsta iðnaðarfyrirtækið í Kauphöllinni.

Á síðasta ári munaði mest um nýskráningu Exista, en einnig var Icelandair þá skráð í kauphöllina. Sömuleiðis er hægt að líta á uppskiptingu Dagsbrúnar, í Teymi og 365, sem nýskráningar.

Í Kauphöllinni eru nú 25 félög en Vinnslustöðin hefur boðað afskráningu. Af þeim flokkast níu með stórum félögum, tíu sem meðalstór félög og sex sem smærri félög. Frá og með 1. apríl síðastliðnum eru félögin hluti af norrænum vísitölum OMX, meðal annars heildarvísitölu og atvinnugreinavísitölum. Heildarvísitalan sýnir þróun norræna markaðarins en atvinnugreinavísitölurnar gera fjárfestum kleift að bera saman atvinnugreinar á Norðurlöndunum. Í flokki stórra félaga eru félög yfir einum milljarði evra að markaðsvirði, til meðalstórra félaga teljast þau sem eru á bilinu 150 milljónir til eins milljarðs evra að markaðsvirði og í flokki smærri eru félög undir 150 milljónum evra að markaðsvirði.

Þórður benti á að það hefði gengið gríðarlega vel á hlutabréfamarkaði hér á landi undanfarin ár og til marks um það hefur verðmæti fyrirtækja sem hlutfall af landsframleiðslu farið úr því að vera 55% af landsframleiðslu fyrir fimm árum í að vera 230% af landsframleiðslu í dag. Það felur í sér að íslenski hlutabréfamarkaðurinn, að tiltölu af landsframleiðslu, er einn stærsti ef ekki stærsti hlutabréfamarkaður í heimi. Jafnframt, ef við höfum sömu tímaviðmið síðustu fimm ár, hefur veltan átjánfaldast og það er einnig eitthvað sem við sjáum ekki hafa gerst annars staðar.

Fyrirtækjunum hefur fækkað úr 75 í 25 en Þórður sagðist telja það í raun og veru fjölgun því að fyrirtækin hafa sameinast og síðan hafa útrásarfyrirtækin keypt og fjárfest gríðarlega mikið í fyrirtækjum erlendis. "Þessi stækkun skiptir miklu meira mæli en fjölgunin ein og sér," sagði Þórður.