Formenn Bændasamtakanna, Svínaræktarfélags Íslands og Félags kjúklingabænda hafa sent Sigurði Inga Jóhannssyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, bréf vegna þess neyðarástands sem skapast hefur hjá alifugla- og svínabændum vegna verkfalls dýralækna innan Bandalags háskólamanna. Þetta kemur fram á vef Bændasamtakanna .

Í bréfinu kemur fram að staðan sé orðin slík að algjört neyðarástand ríki á mörgum búum. Velferð dýra sé alvarlega ógnað en einnig stefni í fjöldagjaldþrot í þessum búgreinum. Ekki hafi verið veittar undanþágur af hálfu dýralækna til slátrunar og sölu sem þýði að búin hafi ekki tekjur til að sinna bústofni sínum.

Segja ráðherra bera ábyrgð

„Stjórnvöld hafa með lagasetningu lagt ríkar skyldur á herðar bændum þess efnis að þeir gæti velferðar dýra sinna, sbr. lög um velferð dýra nr. 55/2013. Við núverandi aðstæður er hins vegar ljóst að þeir geta engan veginn staðið undir þeim skyldum vegna verkfallsins. Landbúnaðarráðherra ber ábyrgð á framkvæmd þeirra laga sem bændum ber að starfa eftir og tryggja eðlilegt starfsumhverfi þeirra, en jafnframt velferð dýranna,“ segir í bréfinu.

Í þessu ljósi segjast Bændasamtökin, Svínaræktarfélagið og Félag kjúklingabænda gera annað hvort þá kröfu að landbúnaðarráðherra tryggi að dýralæknar verði við störf hjá Matvælastofnun í því skyni að bændum verði tryggð eðlileg starfsskilyrði og velferð dýra þeirra virt, eða að ríkið taki yfir þær skyldur sem kveðið sé á um í lögum um velferð dýra og lagðar séu á bændur.

„Þá er rétt að minna á að sláturleyfishafar greiða til ríkisins eftirlitsgjald sem tryggja á ákveðna lögbunda þjónustu. Sú þjónusta hefur ekki verið veitt á meðan verkfallinu hefur staðið. Bændasamtökin, Svínaræktarfélagið og Félag kjúklingabænda vill þá taka fram að ef aflífa þarf bústofn þá sé það hlutverk stjórnvalda að framkvæma það en ekki bænda,“ segir að lokum.