Wall Street í New York.
Wall Street í New York.
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)
Hlutabréfaverð hækkaði þegar viðskipti hófust á Wall Street í dag. Nasdaq vísitalan og S&P 500 hækkuðu báðar um 0,5%. Fjárfestar virðast temmilega bjartsýnir á að aðgerðir evruríkja dragi úr skuldavanda þeirra.

Wall Street Journal segir frá því á fréttasíðu sinni að ástæða hækkunar megi rekja varfærinnar bjartsýni á að evrulöndin séu að ná tök á skuldakrísunni.

Dregið hefur úr hækkunum á helstu vísitölum í Evrópu, frá því sem hæst var í morgun. Sumar hafa lækkað. FTSE í Lundúnum hefur lækkað um 0,75% en Dax í Frankfurt og CAC í París hafa hækkað örlítið.

Hlutabréf um allan heim hafa sveiflast undanfarna mánuði upp og niður eftir því hvaða fréttir hafa borist frá Washington og Brussel.  Þessa stundina beinast augu fjárfesta aðallega að Brussel, Berlín og Aþenu.

Vaxandi andstaða, bæði meðal almennings og stjórnmálamanna, virðist vera við frekari þátttöku Þjóðverja í neyðarlánum til annarra ríkja myntsamstarfs Evrópu. Á hinn bóginn eiga þýskir bankar mikið undir að farsæl lausn finnist á skuldamálum Grikklands. Bankarnir myndu ekki þola ef krísan færðist yfir á önnur lönd, sérstaklega Spán og Ítalíu.

Því má búast við að hlutabréfaverð haldi áfram að sveiflast í takt við bjartsýni eða svartsýni manna á því hvort takist að leysa skuldakrísuna í Evrópu.

Berlínarmúr
Berlínarmúr
© Aðrir ljósmyndarar (VB MYND)