Líkur er á að taprekstur verði hjá Högum á yfirstandandi fjórðungi sem nær frá mars og út maí samkvæmt upplýsingum sem birtar voru með uppgjöri Haga í gær . Það yrði í fyrsta sinn sem Hagar eru reknir með tapi á ársfjórðungi frá skráningu félagsins í Kauphöll Íslands árið 2011. Félagið ráðgerir að rekstarahagnaður félagsins fyrir afskriftir (EBITDA) verði 800 milljónir til 1,1 milljarður króna á fjórðungnum en var til samanburðar 2 milljarðar króna á sama tímabili fyrir ári. Þá var hagnaður félagsins 665 milljónir króna.

Undanfarið ár hefur ársfjórðungsleg EBITD A numið 2 til 2,5 milljörðum króna, afskriftir numið frá 933 milljónum til 1.045 milljóna á hverjum fjórðungi, hrein fjármagnsgjöld frá 272 til 440 milljónum króna. Þá hefur hagnaður félagsins verið frá 665 milljónum til 1.056 milljóna undanfarna fjóra fjórðunga.

Kostnaðarsöm forstjóraskipti

Í uppgjörinu kemur fram að tekjuvöxtur hafi verið í dagvöru en samdráttur en samdráttur í olíu-, bensín- og veitingasölu hjá Olís og í sérvöruverslunum. Gengisfall krónunnar og lækkun á heimsmarkaðsverði á olíu hafi áhrif á framlegð Olís og auk þess að verðhækkanir birgja hafi verið töluverðar. Því til viðbótar bókfærir félagið 315 milljóna króna kostnað vegna starfsloka Finns Árnasonar, forstjóra Haga og Guðmundar Marteinssonar, framkvæmdastjóra Bónus sem báðir hafa starfað hjá félaginu í yfir 20 ár. Guðmundur var með þriggja ára uppsagnarfrest og Finnur árs uppsagnarfrest.

Áhrifin mest á þessum fjórðungi

Hagar hafa ekki gefið út afkomuspá fyrir rekstrarárið 2020/21 þar sem mikil óvissa ríki enn um áhrif faraldursins á rekstrarárið sem hófst þann 1. mars síðastliðinn. Þó búast stjórnendur félagsins við að áhrif faraldursins komi að stórum hluta komin fram á yfirstandandi ársfjórðungi. Því má áfram búast við að hagnaður verði hjá Högum á reikningsárinu öllu þó tap sé á yfirstandandi fjórðungi.

Þá segir enn fremur að gripið hafi verið til margvíslegra aðgerða til að tryggja öryggi starfsfólks, viðskiptavina og annarra samstarfsaðila félagsins. „Aðgerðirnar skipta miklu máli því stór hluti af starfsemi samstæðunnar, s.s .matvöruverslanir og tengd vöruhús, ásamt sölustöðum eldsneytis, gegna stóru hlutverki íinnviðastarfsemi landsins, sérstaklega í krefjandi aðstæðum sem þessum. Mikið og gott samstarf hefur verið við stjórnvöld og einnig við birgja, sem hefur komið í veg fyrir vöruskort,“ segir í uppgjöri Haga.

Efnahags- og lausafjárstaða Haga sé sterk og félagið vel í stakk búið til að takast á við þær aðstæður sem nú dynja á. Hagar nýttu sér hlutabótaúrræði stjórnvalda en ákváðu í maí að endurgreiða allan þann kostnað aftur til Vinnumálastofnunar, upp á 36 milljónir króna. Félagið gerir ekki ráð fyrir að nýta önnur úrræði stjórnvalda vegna efnahagsáhrifa heimsfaraldursins.