Stjórn verslunarfyrirtækisins Morrison hefur greint frá því að allt bendir til þess að yfirstandandi ár verði fyrsta tapár í 106 ára sögu félagsins. Tap var á fyrri helmingi ársins og nú hafa forráðamenn félagsins greint frá því að allt stefni í tap á árinu í heild. Ástæðuna má einkum rekja til kaupa félagsins á verslunarkeðjunni Safeway og kostnað því samfara segir í frétt Financial Times.

Morrison greiddi 3,35 milljarða punda fyrir Safeway og það hefur komið niður á hagnaði félagsins.

Tap fyrir skatta á fyrstu sex mánuðum ársins nam 73,7 milljónum punda en til samanburðar má nefna að hagnaður félagsins var 121,6 milljónir punda á síðasta ári.