Domino‘s í Noregi opnaði á dögunum nýjan veitingastað í Þelamörk í suðurhluta landsins. Alls seldust yfir 800 pizzur fyrsta daginn og var bið eftir pizzu hátt í tveir klukkutímar á tímabili. „Svo fór að fljúga þurfti með aukabirgðir af osti og deigi í þyrlu frá Ósló þar sem salan var langt yfir væntingum,“ segir í tilkynningu um málið.

Á heimsvísu er Domino‘s með 11 þúsund sölustaði í 70 löndum, og þar af eru 19 staðir á Íslandi. Norskir fjárfestar standa að baki rekstrinum í Þelamörk ásamt Íslendingnum Birgi Bieltvedt en hann stendur einnig á bakvið rekstur Domino‘s á Íslandi og hefur komið að opnun staða í Danmörku og Þýskalandi. Matseðillinn í Noregi dregur dám af þeim íslenska og stuðst er við það sem gengið hefur vel í Íslendinga á allra síðustu árum.

Magnús Hafliðason er framkvæmdastjóri Domino‘s í Noregi en var áður markaðs- og rekstrarstjóri staðarins. „Við erum búin að sjá ótrúlegan vöxt hjá Domino‘s í Noregi á mjög stuttum tíma. Viðskiptavinir okkar í Þelamörk tóku opnun staðarins afar vel og starfsmennirnir stóðu sig vonum framar í ösinni sem myndaðist. Við vorum ekki vissir hvernig Norðmenn myndu taka okkur til að byrja með, en salan í kringum opnunina á hverjum stað hingað til hefur verið á pari við það sem best þekkist hjá Domino‘s í heiminum. Mér sýnist þetta stefna í heimsmet,“ segir Magnús.