Heildarmat fasteigna á Íslandi hækkaði um 5,8% frá síðasta mati og verður 5.755 milljarðar króna samkvæmt nýju fasteignamati fyrir árið 2016 sem Þjóðskrá Íslands birti á þriðjudaginn. Fasteignamat atvinnuhúsnæðis í landinu hækkaði um 2,3% á milli ára. Hækkunin nam 2,4% á höfuðborgarsvæðinu og 2,2% á landsbyggðinni. Á síðasta ári voru innleiddar nýjar reikniaðferðir við útreikning á fasteignamati sem ollu því að fasteignamat hækkaði um 18% að meðaltali hjá þeim sem falla undir þessa nýju aðferðafræði. Þetta hafði þó nokkur áhrif á rekstur fasteignafélaga hér á landi og voru forsvarsmenn helstu fasteignafélaganna mjög ósáttir við breytingarnar.

Að sögn Guðjóns Auðunssonar, forstjóra Reita sem er stærsta fasteignafélag landsins, kemur matið þetta árið ekki á óvart. Hann sé hins vegar enn ósáttur við þær breytingar sem gerðar voru frá matinu 2015. „Sú afstaða okkar er óbreytt,“ segir Guðjón. „Okkur finnst við ekki hafa fengið skýringar, leiðréttingar eða röksemdafærslur fyrir því af hverju farið var fram með það mat. Áhrifin af því eru að koma stórfurðulega út fyrir eignir í okkar safni. Við höfum kært fjölda eigna og ennþá fengið takmörkuð viðbrögð. Að mínu mati stefnir í málaferli og þrætur fyrir dómstólum um þetta mál að öllu óbreyttu.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .