Útlit er fyrir að vöxtur einkaneyslu á síðasta fjórðungi ársins muni reynast myndarlegur, ekki síst vegna hraðari vaxtar einkaneyslu innanlands en verið hefur undanfarna fjórðunga. Þetta kemur fram í nýrri umfjöllun Greiningar Íslandsbanka .

Þar kemur fram að nýbirtar kortavelturtölur Seðlabankans gefi vísbendingu um þetta, en samkvæmt þeim nam raunvöxtur kortaveltu á milli ára 7,3% í nóvember. Vöxturinn var mikill á erlendri grundu en þar nam hann 15,6% að raunvirði milli ára. Raunvöxtur kortaveltu innanlands í mánuðinum var hins vegar tvöfalt meiri en hann hefur að jafnaði verið á árinu eða um 6,2% á móti 3,4%.

Greining Íslandsbanka segir að ef ekki komi bakslag í þróunina í desember sé útlit fyrir að vöxtur einkaneyslu verði allhraður á síðasta fjórðungi ársins. Þannig nemi raunvöxtur kortaveltu eintaklinga í október og nóvember samanlagt um 6,2% milli ára og ef þetta verði raunin sjáum við fram á mesta vöxt milli ára frá öðrum ársfjórðungi 2011.