Mikil aukning hefur orðið á síðustu árum á greiðslum úr Ábyrgðasjóði launa. Heildargreiðslur Ábyrgðasjóðs launa árið 2003 námu rúmum 733 milljónum króna. Aukning frá fyrra ári samsvarar 2,54% og frá árinu 2001 um 106%. Útgjöld vegna þrotabúa á árinu 2003 voru tæpar 716 milljónir króna en í ár stefnir í met hvað varðar greiðslur úr sjóðnum.

Greiðslur vegna vangoldinna launa og slita á ráðningarsamningi námu um það bil 336,7 milljónum króna og vegna vangoldinna lífeyrissjóðsiðgjalda 228,5 milljónum króna. Launagreiðslurnar lækkuðu hlutfallslega miðað við árið 2002 um 10,79% en lífeyrissjóðsgreiðslurnar jukust um 37,6 %. Lögfræði og innheimtukostnaður hefur einnig aukist verulega á milli ára, en
árið 2001 var hann rétt rúmar 12 milljónir, árið 2002 var hann tæpar 28 milljónir og árið 2003 rúmar 47 milljónir. Greiðslur vegna greiðsluerfiðleika fyrirtækja námu um 17,8 milljóna króna á síðasta ári.

Þetta kemur fram í álitsgerð sem Harri Ormarsson lögfræðingur vann fh. sjóðsins og hún hefur nú verið afhent félagsmálaráðuneytinu til umfjöllunar. Í álitsgerðinni er reynt að grenslast fyrir um ástæður
útgjaldaaukningar úr sjóðnum og hvaða úrræði væru mögulega tæk til að sporna við þróuninni, en í ár stefnir í met hvað varðar greiðslur úr sjóðnum.

Af samanburðartölum sést að greiðslur til þrotabúa hafa aukist jafnt og þétt:
? Árið 2001 voru greiddar kröfur voru vegna 320 þrotabúa.
? Árið 2002 voru greiddar kröfur til 560 þrotabúa.
? Árið 2003 voru greiddar kröfur til 714 þrotabúa.