A fyrstu ellefu mánuðum ársins nemur afgangur af vöruskiptum 108,9 milljörðum króna. Það jafngildir aukningu upp á rúm 44% á föstu gengi frá sama tímabili fyrir ári. Má telja nokkuð víst að um metafgang af vöruskiptum sé að ræða í ár.

Þetta kemur fram í morgunkorni greiningar Íslandsbanka. „Þannig er útlit fyrir að hann muni verða á bilinu 115-125 ma.kr. og verði það raunin þá hefur hann ekki verið meiri í a.m.k. tvo áratugi, eða eins langt aftur og tölur Hagstofu ná. Í fyrra nam vöruskiptaafgangurinn 6% af vergri landsframleiðslu (VLF) en nú stefnir í að hann verði um 7-8% af áætlaðri VLF ársins,“ segir í morgunkorni.

Á föstu gengi hefur vöruútflutningur aukist um tæp 15% á fyrstu ellefu mánuðum ársins samanborið við sama tímabil í fyrra og vöruinnflutningur aukist um tæp 9%. „Hvað útflutning varðar þá skýrist þessi aukning einna helst af auknum tekjum af útfluttum iðnaðarvörum en útflutningsverðmæti þeirra er ríflega þriðjungi meira en á sama tímabili í fyrra, sé leiðrétt fyrir gengisbreytingum. Sem kunnugt er má rekja þessa þróun að stærstum hluta til verðhækkunar á áli á heimsmarkaði á tímabilinu. Skýring á auknum innflutningi liggur að mestu í að innflutningur á hrá- og rekstrarvörum er um fimmtungi meiri nú en á sama tíma í fyrra á föstu gengi og innflutningur fjárfestingavara um 62% meiri. Á hinn bóginn hefur innflutningur flutningatækja dregist saman um 39% á tímabilinu og er eini liðurinn, að innfluttum vörum ótilgreindum annars staðar undanskildum sem dregist hefur töluvert saman á tímabilinu.“

Hagstofan birti í morgun bráðabirgðagögn um vöruskipti við útlönd í nóvember. Samkvæmt þeim voru vöruskiptin hagstæð um 10,4 milljarða króna í nóvember. „Alls voru fluttar út vörur fyrir rúmar 48,3 ma.kr. í mánuðinum en vöruinnflutningur nam tæpum 38 mö.kr. Þetta er mun meiri afgangur af vöruskiptum en í nóvember fyrir ári eða sem nemur rúmum 8,5 mö.kr., reiknað á sama gengi. Þessi munur skýrist af því að vöruútflutningur hefur aukist mun meira en vöruinnflutningur á tímabilinu, eða um 26% á móti 4% á föstu gengi.“ segir í morgunkorni.