*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 16. október 2020 19:01

Stefnir í metár hjá Fiskikónginum

Eigandi Fiskikóngsins segir stefna í metár í sögu fyrirtækisins, eftir verulega söluaukningu á heitum pottum í faraldrinum.

Ritstjórn
Kristján Berg Ásgeirsson, eða Fiskikóngurinn líkt og hann er oft kallaður, segir stefna í metár hjá fyrirtækinu á þessu ári.
Gígja Einarsdóttir

Árið 2019 var mjög gott ár fyrir okkur. Þó svo að fyrirtækið heiti Fiskikóngurinn ehf. erum við einnig að gera ýmislegt annað en það sem tengist fiskvinnslu. Við seljum einnig heita potta, hreinsiefni og ýmsa aðra aukahluti sem tengjast heitum pottum. Á síðasta ári tókum við í notkun nýjan sýningarsal sem breytti stöðu okkar til hins betra, þar sem við gátum komið okkur upp meiri lager. Í kjölfarið jókst salan á heitum pottum verulega," segir Kristján Berg Ásgeirsson, eigandi Fiskikóngsins, eða Fiskikóngurinn eins og margir kjósa að kalla hann.

Kristján segir að, þó furðulega megi hljóma, vilji hann ekki aukin viðskipti í fisknum.

„Það sem einkennir okkar rekstur er að við erum mjög sátt við reksturinn og afkomu hans. Í fyrirtækjarekstri vill fólk oft meira og vill stækka hratt en við erum ekki á þeim buxunum, segir Kristján og bætir við: „Auk þess býður húsnæðið sem við erum í ekki upp á meiri stækkun. Miðað við átta tíma dagvinnu getum við ekki framleitt meira en við erum að gera. Við erum því ekki að leggja áherslu á að sækja nýja viðskiptavini í þeim skilning að reyna að stækka."

Syntu á móti straumnum

Kristján segir að árið 2020 sé þegar orðið það eftirminnilegasta í rekstri frá stofnun fyrirtækisins. "Það hefur margt eftirminnilegt átt sér stað á þessu ári. Í febrúar átti ég pantað flug til Kína, eða um það leyti sem COVID-19 var komið á flug þar. Þarna var lítið vitað um þessa veiru og ég ætlaði bara að halda mínu striki og fara í ferðina en konan mín bannaði mér sem betur fer að fara," segir Kristján og rifjar í kjölfarið upp fyrstu dagana í því óvissuástandi sem myndaðist hér á landi eftir að settar voru á strangar samkomutakmarkanir og mörgum fyrirtækjum var gert að loka tímabundið.

„Árið 2019 var gott ár í sölu heitra potta og ég var búinn að setja markmið um að við myndum halda sömu sölu árið 2020 eða, ef allt gengi upp, auka hana um 20%. Ég átti mjög stóran lager af pottum yfir veturinn en þegar veiran kemur til landsins þá setti ég mig í samband við framleiðandann okkar úti og óskaði eftir því að afpanta fyrirhugaða sendingu. Að sama skapi afpantaði ég allar auglýsingar," segir Kristján.

Í kjölfarið hafi maður, sem hefur hjálpað Kristjáni með auglýsingamálin, óskað eftir fundi til að fara yfir stöðuna. Sá fundur, þar sem í raun var ákveðið að synda á móti straumnum, átti að sögn hans eftir að reynast lykillinn að góðri sölu heitra potta sl. vor og sumar. Svo góð var salan að Kristján kveðst nánast geta fullyrt að 2020 verði besta ár í sögu fyrirtækisins.

„Þessi vinur minn vinnur við að selja auglýsingar og sagði mér frá því að það væru nánast allir að afpanta auglýsingar. Hann sagði að það væri þrennt sem hægt væri að gera: halda mínu striki í auglýsingum, draga úr auglýsingum eða fara í hina áttina og auka við auglýsingar," segir Kristján, sem kveðst, eftir að hafa heyrt síðastnefndu tillöguna, hafa spurt umræddan vin sinn hvort hann væri genginn af göflunum.

„Hann benti þá á að vegna ástandsins væru að fara koma inn tilboð á auglýsingum hjá flest öllum miðlum og því væri hægt að fá auglýsingar á góðum kjörum. Ég hugsaði málið og ákvað að tvöfalda auglýsingafé mitt. Ég hugsaði þetta sem svo að þegar mjög margir eru tímabundið að hætta að auglýsa, en á sama tíma eru allir að horfa á sjónvarpið og hlusta á útvarpið til að fá fréttir af veirunni, þá verða mínar auglýsingar meira áberandi."

Kristján segir jafnframt að vegna ástandsins hafi nær allir söluaðilar Arctic Spas heitu pottanna víða um heim afpantað fyrirhugaðar sendingar frá verksmiðjunni. Til að halda verksmiðjunni gangandi hafi Arctic Spas því sent út sértakt tilboð á pottunum til allra viðskiptavina sinna. „Ég ákvað því að panta 100 potta í viðbót, ofan á það að vera þegar með mikinn lager. Sumarið hjá okkur var hrikalega gott og var það algjört lykilatriði að við áttum nóg af vörum sem við gátum afhent strax."

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem kom út í gær og unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér.