Loðdýraskinn halda áfram að hækka hjá uppboðshúsinu Kopenhagen Fur í Kaupmannahöfn og stefnir í að árið 2012 slái metárið 2011 út hjá íslenskum loðdýrabændum. Alls voru seld íslensk minkaskinn fyrir 1,1 milljarð króna í fyrra. Reiknað er með að upphæðin hækki um allt að 40% ef verðið helst áfram hátt. Greint er frá málinu á vef Vísis .

Meðalverð á skinnum hækkaði um 13% á seinnihluta ársins 2011 og fengu íslenskir bændur um 500 danskar krónur, ríflega 10.000 krónur, að meðaltali fyrir skinnið. Alls voru seld um 20 þúsund íslensk skinn.

Haft er eftir Birni Halldórssyni, formanni Samtaka íslenskra loðdýrabænda, að á næsta uppboð í apríl fari um 40 þúsund skinn, og álíka mikið á uppboð í júní. Ef verðið helst hátt má reikna með að tekjur íslenskra búa verði um 900 milljónir króna.