September var söluhæsti mánuður Mercedes-Benz á árinu á heimsvísu. Alls seldi Mercedes-Benz 120.982 bíla um allan heim í september. Fyrirtækið hefur aldrei selt jafn marga bíla í mánuðinum. Það sem af er ári hafa selt 919.288 Mercedes-benz bílar á heimsvísu sem er 7,6 prósenta aukning frá síðasta ári. Allt stefnir í metár hjá fyrirtækinu.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu er haft eftir dr. Joachim Schmidt, aðstoðarforstjóra markaðs- og sölusviðs Mercedes-Benz, að fyrirtækið hafi skilað metsölu á öðrum ársfjórðungi. Gert hafi verið betur á þriðja fjórðungi þegar sölumet var slegið. „Allt stefnir því í að árið 2011 verði metár í bílasölu hjá Mercedes-Benz,“ segir dr. Schmidt.

Mesta söluaukningin á Mercedes-Benz bílum í september var í Kína eða 12,7 prósent en auk þess varð mikil söluaukning á bílunum í Rússlandi, Taívan, Suður-Kóreu og Indlandi.

Þá er þríhyrnda stjarnan, merki Mercedes-Benz, verðmætasta vörumerkið í Evrópu og það tólfta verðmætasta í heimi. Þetta er niðurstaða hins virta markaðsrágjafarfyrirtækis Interbrand Zinzmeyer&Lux sem sérhæfir sig í að verðmeta öflugustu vörumerkin á markaðnum hverju sinni.

Mercedes-Benz er auk þess verðmætasta vörumerki bílaframleiðenda í heiminum.