*

fimmtudagur, 4. júní 2020
Erlent 22. mars 2020 14:05

Atvinnuleysi blasir við milljónum

Talið er að metfjöldi Bandaríkjamanna hafi sótt um atvinnuleysisbætur í síðustu viku. Gamla metið hafði staðið frá árinu 1982.

Ritstjórn
Götur margra af stærstu borgum heims meira og minna auðar þessa dagana. Það var heldur tómlegt um að litast fyrir utan Kauphöllina í New York klukkan 9 að morgni síðastliðinn miðvikudag.
epa

Búist er við að metfjöldi Bandaríkjamanna hafi sótt um að komast á atvinnuleysisskrá í nýliðinni viku. Samkvæmt greiningu Goldman Sachs á bráðabirgðatölum í 30 ríkjum Bandaríkjanna er ráðgert að 2,25 milljónir Bandaríkjamanna hafi óskað eftir því að fara á atvinnuleysisskrá í síðustu viku. Fyrra metið hefur staðið í nærri 38 ár eða frá haustmánuðum 1982 þegar 695 þúsund sóttu um atvinnuleysisbætur á einni viku.

Í besta falli gerir Goldman ráð fyrir að ein milljón bætist á atvinnuleysisskrá. Bank of America er enn svartsýnni og býst við að allt að þrjár milljónir manna hafa óskað eftir atvinnuleysisbótum í síðustu viku og að ein milljón til viðbótar bætist við í apríl.

Tölurnar fyrir landið í heild vegna síðustu viku verða birtar á fimmtudaginn næstkomandi. Stjórn Donald Trump hefur beðið vinnumálastofanir einstaka ríkja að bíða með að birta fjölda umsókna um atvinnuleysisbætur þar til landstölurnar eru birtar á fimmtudaginn en halda sig frekar við orðalag á borð við „mjög mikla fjölgun“ eða „mikinn vöxt“. 

Síðastliðinn fimmtudag kom í ljós að umsóknum um atvinnuleysisbætur vikuna þar á undan hefðu verið 281 þúsund sem er fjölgun um 33% milli vikna. Það er mesti vöxtur milli vikna frá árinu 1992. Ohio ríki birti á föstudaginn tölur sem ná til síðasta fimmtudags. Þar fjölgaði beiðnum um atvinnuleysisbætur úr 4.815 í 139.468 milli vikna.

Þó stefni í metfjölgun milli vikna er atvinnuleysi enn ekki komið á þann stað sem það var fyrir rúmum áratug. Árið 2009 fór atvinnuleysi í Bandaríkjunum í 10% þar sem yfir 15 milljónir Bandaríkjamanna voru atvinnulausar. Til samanburðar var atvinnuleysi í Bandaríkjunum 3,5% í febrúar þar sem um sex milljónir Bandaríkjamanna voru skráð atvinnulaus.