Á morgun fer fram dagur einhleypra (Singles Day), stærsti dagur hvers árs hjá netverslunum, en skapast hefur hefð fyrir því að 11. nóvember ár hvert bjóði netverslanir víða um heim viðskiptavinum sínum upp á að kaupa vörur á afsláttarkjörum. Umrædd hefð á rætur sínar að rekja til Kína en fleiri þjóðir hafa tekið upp þennan sið Kínverja, þar á meðal Íslendingar.

Umfang og stærðargráða Singles Day er allveruleg, en samkvæmt BBC vinna þrjár milljónir starfsmanna, auk 4 þúsund skipa og flugvéla, við að undirbúa og koma vörum sem kaupþyrstur almúginn festir kaup á, á þessum merkisdegi, til skila. Reiknað er með að salan verði enn meiri á morgun heldur en undanfarin ár vegna kórónuveirufaraldursins.

Singles Day í Kína varð á síðasta ári stærsti netverslunardagur frá upphafi á heimsvísu er 1,9 milljarðar vara voru verslaðar og sendar til kaupenda í landinu. Búist er við að Kínverjar muni slá eigið met á morgun.

Reiknað er með að róbótaryksugur, hefðbundnar ryksugur og verkfærasett verði selt í miklu magni á morgun. Þá eru lúxusvörumerki vongóð um væna sölu þar sem þau reikna með að margir Kínverjar sem ekki hafa getað ferðast erlendis undanfarna mánuði í verslunarleiðangra vegna heimsfaraldursins muni í staðinn svala kaupþorstanum í gegnum netið.