Mjög hagstæð skilyrði hafa verið til kornræktar á Vesturlandi í vor og sumar og stutt í að hægt verði að þreskja korn af fyrstu ökrunum þar. Þetta kemur fram í frétt á fréttavef Skessuhorns. Þetta fer saman við ástand á kornökrum annars staðar á landinu og því ljóst að kornuppskera verður óvenju góð um allt land.

Magnús Eggertsson, bóndi í Ásgarði í Reykholtsdal hefur um árabil gert út kornþreskivél fyrir sjálfan sig og aðra bændur í héraðinu. Í samtali við Skessuhorn í gær sagði Magnús að allt stefndi í metuppskeru þetta árið. ?Mér sýnist þetta líta rosalega vel út. Einhverjir blettir eru þegar farnir að gulna og við það að verða tilbúnir til þreskingar. Venjulega hefst þresking um eða fyrir miðjan september en núna munum við byrja uppúr miðjum ágúst, eða mánuði fyrr en venjulega," segir Magnús í viðtali við Skessuhorn. Hann kveðst vera nýlega kominn úr hringferð um landið og segir ástand á kornökrum á Vesturlandi vera síst verra en annarsstaðar á landinu, en Eyfirðingar eru þegar byrjaðir að þreskja korn, eins og fram hefur komið í fréttum.

Byggt á www.skessuhorn.is