Vöruskipti voru hagstæð um 12,5 milljarða króna í febrúar, samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Samkvæmt þeim voru vörur fluttar út fyrir 54,1 milljarð króna í mánuðinum en inn fyrir 41,6 milljarða.

Annar eins afgangur af vöruskiptum hefur sjaldan sést síðastliðin tuttugu ár og hefur hann aðeins einu sinni verið meiri á tímabilinu. Það var í febrúar fyrir tveimur árum þegar vöruskipti voru hagstæð um tæpa 13,9 milljarða króna. Þá stefnir jafnframt í metafgaang af vöruskiptum, sem gæti numið 22,6 milljörðum króna á óbreyttu gengi á fyrstu tveimur mánuðum ársins gangi allt eftir.