Niðurstöður vinnumarkaðskönnunar Hagstofu hafa undanfarið komið nokkuð á óvart. Frá upphafi síðasta árs var könnunin betrumbætt sem hefur í för með sér að samanburður við eldri niðurstöður verður óvissari. Hvað sem því líður sýnir könnunin að störfum hafi fækkað verulega að undanförnu og voru þau 4.800 færri á 3. fjórðungi ársins í ár en á sama tíma í fyrra, sem er 3% fækkun. Þegar litið er til fyrstu níu mánaða þessa árs samanborið við sama tímabil 2003 þá er fækkunin minni, eða um 2.000 störf, sem er 1,3% fækkun.

Í nýju fréttarblaði Samtaka atvinnulífsins kemur fram að þegar rætt er hér um framleiðniaukningu er átt við hlutfallið milli aukningar landsframleiðslu og aukningar í heildarfjölda starfandi. Ef tekið er tillit til breytingar á vinnutíma þá verður matið á framleiðniaukningunni lægra. Vinnutími hefur lengst nokkuð þannig að á fyrstu níu mánuðunum minnkaði vinnumagn landsmanna í heild minna en störfunum fækkaði, eða um 0,4%. Þar sem hagvöxturinn er talinn hafa verið 5,5% á fyrri helmingi ársins virðist stefna í verulega framleiðniaukningu á árinu, eða sem nemur hagvextinum að viðbættri minnkun vinnumagnsins, samtals um 6%. Matið á fjölda starfandi kann þó að vera of lágt vegna þess hversu illa erlent starfsfólk sem nýlega hefur komið til landsins endurspeglast í vinnumarkaðskönnuninni. Erlent starfsfólk við Kárahnjúka er t.d. að mjög takmörkuðu leyti komið inn í könnunina og liggur ástæðan í aðferðinni við val á úrtakinu. Leiðrétting vegna þessa næmi þó einungis liðlega hálfu prósenti og því ljóst að störfum hefur farið fækkandi og framleiðni- aukningin hefur verið mjög mikil.

Framleiðnivöxtur lífsnauðsynlegur
Ef það er rétt að framleiðniaukning sé svona mikil þá verða það að teljast ánægjuleg tíðindi vegna þess að ef framleiðni eykst þá getur kaupmáttur launa aukist, sem og hagnaður fyrirtækja og arður hluthafa og hvati til fjárfestinga þar með einnig. Ef á hinn bóginn framleiðni eykst lítið sem ekkert eru allar líkur á stöðnun sem að öllum líkindum fylgir verðbólga, aukið atvinnu- leysi og minnkandi kaupmáttur. Staðreyndin er því sú að kröftugur framleiðnivöxtur er lífsnauðsynlegur, ekki síst í heimi hnattvæðingar þar sem samkeppnin fer sífellt harðnandi.

Tækninýjungar sem komu fram um og upp úr miðjum síðasta áratug hafa valdið því að framleiðniaukningin hefur færst á hærra stig. Farsímar, fartölvur, tölvupóstur, háhraðanet og tölvustýrð framleiðslukerfi hafa leitt til framleiðnibyltingar. Þessi framleiðnibylting er hins vegar þess eðlis að hún byggist á tækninýjungum og nýjum vinnuaðferðum og er þannig í eðli sínu stighækkun í eitt skipti þótt áhrifin af þessum tækninýjungum og stöðugum endurbótum á þeim séu að koma fram á allmörgum árum.

Stuðlar að nýjum störfum

Aukin framleiðni á alls ekki að þurfa að leiða til aukins atvinnu- leysis til lengri tíma. Aukin skilvirkni eykur arðsemi fyrirtækja sem aftur leiðir til aukinna fjárfestinga. Fjárfestingarnar auka tekjur annarra fyrirtækja og skapa ný störf hjá þeim. Það er hins vegar umhugsunarefni hvort sambandið á milli hagvaxtar og atvinnusköpunar hafi breyst varanlega með þeim hætti að stöfum fjölgi hægar en áður, í krafti fyrrnefndra tækninýjunga.