Félagið Óskabein mun tefla fram Norðmanninum Jostein Sørvoll í stjórn Vátryggingafélags Íslands (VÍS). Sørvoll er menntaður tryggingastærðfræðingur með 40 ára reynslu af norskum og alþjóðlegum tryggingarekstri. Hann hefur gegnt stjórnunarstörfum í norska tryggingafélaginu Storebrand og starfað sem forstjóri Norske Liv og SwissRe Norway.

 Jostein Sørvoll
Jostein Sørvoll
Rétt eftir aldamót stofnaði hann, ásamt öðrum, tryggingafélagið Protector Forsikring, sem í dag er sjöunda stærsta tryggingafélag Noregs og með starfsemi í fimm löndum. Sørvoll hefur bæði starfað sem forstjóri og stjórnarformaður félagsins. Protector Forsikring er í dag skráð í kauphöllinni í Osló. Markaðsvirði þess er um 85 milljarðar króna og undanfarin tíu ár hefur samsett hlutfall félagsins verið um 88%.

Ný stjórn

Fjallað er ítarlega um málefni VÍS í Viðskiptablaðinu í dag. Á þriðjudaginn verður haldinn hluthafafundur í félaginu, þar sem ný fimm manna stjórn verður kjörin, sem og tveir varamenn. Núverandi stjórn var sjálfkjörin á aðalfundi félagsins fyrir átta mánuðum. Boðun hluthafafundarins má rekja til þess að um miðjan síðasta mánuð óskuðu SNV Holding  og Hedda eignarhaldsfélag í sameiningu eftir boðun nýs fundar, þar sem kosið yrði til stjórnar. Félögin, sem eiga samtals 5,05% í VÍS, eru í eigu hjónanna Svanhildar Nönnu Vigfúsdóttur og Guðmundar Arnar Þórðarsonar.

Töluverð umræða hefur verið um stjórn VÍS á þessu ári. Í aðdraganda aðalfundar félagsins, sem haldinn var í fimmtudaginn 12. mars, ákvað þáverandi stjórnarformaður félagsins, Hallbjörn Karlsson, að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi setu í stjórn. Í kjölfar þess lækkaði gengi bréfa í félaginu. Þá var ljóst að sex frambjóðendur myndu bítast um fimm stjórnarsæti. Sú varð hins vegar ekki raunin því sama dag og aðalfundurinn fór fram dró Maríanna Jónasdóttir, fyrrum stjórnarformaður Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, framboð sitt til baka. Í tilkynningu sem VÍS sendi Kauphöllinni segir að Maríanna hafi tekið þessa ákvörðun „í kjölfar umræðu sem framboð hennar hafi skapað og að höfuðmáli skipti fyrir hag hvers fyrirtækis að trúverðugleiki ríki um stjórn þess."

Vendingar þessar leiddu til þess að sjálfkjörið var í stjórn VÍS í mars og tóku sæti þau Ásta Dís Óladóttir, Bjarni Brynjólfsson, Guðrún Þorgeirsdóttir, Helga Jónsdóttir og Steinar Þór Guðgeirsson. Bjarni var eini nýi stjórnarmaðurinn og tók sæti Hallbjörns en Guðrún varð stjórnarformaður. Kjörnir voru tveir varamenn í stjórn, þau Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir og Davíð Harðarson.

Styðja Herdísi Dröfn

Viðskiptablaðið hefur heimildir fyrir því að Lífeyrissjóður verslunarmanna hyggist styðja Herdísi Dröfn Fjeldsted, framkvæmdastjóra Framtakssjóðsins, í stjórn. Síðast studdi sjóðurinn Ástu Dís. Blaðið hefur enn fremur heimildir fyrir því að Bjarni muni sækjast eftir áframhaldandi setu í stjórninni. Enn fremur er talið nokkuð víst að hjónin Svanhildur Nanna  og Guðmundur Örn muni tefla fram manni í stjórn. Samkvæmt heimildum blaðsins er hugsanlegt að annað hvort þeirra gefi kost á sér.

Morgunblaðið greinir frá því að hvorki Ásta Dís né Guðrún Þorgeirsdóttir stjórnarformaður muni gefa kost á sér að nýju. Viðskiptablaðið hefur reynt að ná sambandi við Guðrúnu síðan í gær en hún hefur hvorki svarað í síma né tölvupósti.

Sveiflur á markaði

Gengi hlutabréfa í VÍS sveiflaðist töluvert í Kauphöllinni í dag í ríflega 260 milljóna króna viðskiptum. Um tíma lækkaði gengið um tæp 3% eða niður í 8,87. Þegar markaðir lokuðu hafði það hækkað á ný og endaði 9,14, sem jafngildir 0,22% hækkun.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .