Verð áls á heimsmarkaði hefur lækkað mikið að undanförnu og er nú jafn lágt og í lægðum fjármálakreppunnar árið 2009. ÍSAL er af mörgum ástæðum útsettara fyrir verðlækkuninni en önnur álver á Íslandi.

Árið 2012 var ÍSAL í fyrsta skipti rekið með tapi síðan Rannveig Rist varð forstjóri árið 1997. Árið  2013 varð líka tap á rekstrinum og var hagnaður þess árið 2014 langtum minni en hagnaður annarra íslenskra álframleiðenda. Vegna þess að engar álverðstengingar eru í raforkukaupsamningum ÍSAL skellur álverðslækkunin á fyrirtækinu með fullum þunga. Loks má nefna viðvarandi kjaradeilur hjá fyrirtækinu sem hafa staðið yfir frá því í byrjun sumars eins og áður sagði.

Gera má ráð fyrir að raforkukostnaður ÍSAL hafi nokkurn veginn staðið í stað. Raforkusamningurinn er í dollurum og verðtryggður miðað við neysluverðsvísitölu í Bandaríkjunum, sem hefur lítið breyst á undanförnu ári. Verð súráls hefur lækkað á heimsmarkaði, en áhrif þeirrar verðlækkunar á rekstur ÍSAL fer eftir þeim samningum sem fyrirtækið hefur við birgja sína. Ef fyrirtækið kaupir súrál á dægurverði má gróflega áætla að verðlækkun súráls hafi lækkað rekstrarkostnað þess um 20-30 milljónir dollara á ársgrundvelli eða sem nemur 4-6% af rekstrarkostnaði.

Tekjuhliðin í rekstri ISAL lítur ekki vel út um þessar mundir. Meðalverð hvers selds tonns ISAL af áli í fyrra var um 2.300 dollarar sem er um 25% hærra en heimsmarkaðsverð á hreinu áli. Heimsmarkaðsverðið hefur hins vegar lækkað ört undanfarna mánuði. Miðað við að ál ÍSAL haldi áfram að vera 25% verðmætara en ál á heimsmarkaði og að álframleiðslan sé óbreytt virðist sem tekjur ÍSAL á yfirstandandi ári verði um 50 milljón dollurum minni heldur en í fyrra. Það eru um 6,6 milljarðar króna á núverandi gengi.

Útlitið er dökkt

Miðað við ofangreindar forsendur, og að því gefnu að rekstrarkostnaður lækki um 5% milli ára vegna lækkunar súrálsverðs, er útlit fyrir 3,5 milljarða króna tap af rekstri fyrirtækisins á yfirstandandi ári. Verði það raunin verður uppsafnað tap ÍSAL á árunum 2012-2015 um 9,5 milljarðar króna miðað við núverandi gengi dollara gagnvart krónu.


Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .