Róbert Marshall, þingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, mun tilkynna úrsögn sína úr þingflokknum í dag.

Þetta kom fram á Eyjan.is seint í gærkvöldi og á forsíðu Fréttablaðsins í dag en þar segir jafnframt að hann muni bjóða sig fram fyrir Bjarta framtíð í alþingiskosningunum í vor. Róbert vildi ekki tjá sig um málið þegar Fréttablaðið leitaði til hans en sagðist ætla að tilkynna um áform sín í dag.

Róbert skipaði þriðja sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi fyrir síðustu alþingiskosningar og er áttundi þingmaður kjördæmisins. Þá var hann varaþingmaður fyrir flokkinn á síðasta kjörtímabili og aðstoðarmaður Kristjáns L. Möller, þáv. samgönguráðherra.

Róbert hafði áður tilkynnt að hann ætlaði að bjóða sig fram í Reykjavík í vor.

Rétt er að geta þess að Róbert og Guðmundur Steingrímsson, fyrrverandi varaþingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi þingaður Framsóknarflokksins en nú þingmaður utan flokka og helst forsvarsmaður Bjartrar framtíðar flokksins, eru og hafa verið nánir vinir um árabil. Það þarf því ekki að koma með öllu á óvart að Róbert hafi viljað taka þátt í framboði Guðmundar.

Reynist þetta rétt er þá formlega orðin minnihlutastjórn í landinu þar sem núverandi ríkisstjórn mun ekki hafa þingmeirihluta, þ.e. samanlagður þingmannafjöldi Samfylkingarinnar og Vinstri grænna mun eftir þetta teljast 31 af 63 þingmönnum. Það verður þó að teljast ólíklegt að þeir Róbert og Guðmundur samþykki vantrauststillögu á hendur ríkisstjórninni, enda hefur Guðmundur áður kosið gegn þannig tillögu.

Uppfært kl. 08.20: Róbert Marshall hefur sent frá sér tilkynningu og staðfest það sem hér kemur fram.