*

mánudagur, 17. júní 2019
Innlent 20. janúar 2019 18:39

Stefnir í minnsta hagvöxt í 28 ár

Tölur um hagvöxt í Kína á síðasta ári verða birtar á morgun. Tollastríð gæti fært hagvöxtinn niður í 6,6%.

Ritstjórn
epa

Aukin merki eru um að hagkerfið í Kínverska alþýðulýðveldinu sé farið að hægja á sér í kjölfar tollastríðs landsins við Bandarísk stjórnvöld. Minnkandi hagvöxtur í landinu, sem haldið hefur uppi nálega þriðjungi hagvaxtar í heiminum á síðasta áratug, veldur nú fjölmörgum fyrirtækjum og greinendum í heiminum áhyggjum. 

Eftirspurn í landinu hefur ekki náð að halda í við minnkandi eftirspurn frá stærsta markaði ríkisins, Bandaríkjunum eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti ákvað að setja tolla á fjölmargar vörur frá ríkinu vegna brota á höfundarrétti bandarískra fyrirtækja og ósanngjarnra viðskiptahátta að hans mati.

Hann hefur þó boðað að hann sé bjartsýnn á að samkomulag náist á komandi fundum ráðamanna landanna, en áður hafði Trump hótað að halda áfram að hækka tolla á vörur frá ríkinu. Innflutningur ríkisins á vörum frá Bandaríkjunum er hreinlega ekki nægur til að kínverska ríkið geti svarað lengur í sömu mynt.

Samkvæmt könnun sem Reuters hefur gert telur meirihluti þeirra að hagtölur ríkisins fyrir síðasta ársfjórðung síðasta árs, sem birtar verða á morgun, muni sýna hagvöxtinn minnka enn frá fyrri ársfjórðungi, það er fara úr 6,5% í 6,4%.

Slíkar ársfjórðungstölur hafa ekki sést síðan snemma árs 2009 þegar áhrifin af efnahagshruninu gætti helst. Ef niðurstaðan verður samkvæmt spám greinendanna verður árshagvöxturinn í kommúnistaríkinu 6,6%, en verg þjóðarframleiðsla í landinu fyrir árið hefur ekki verið jafnlágur í ríkinu síðan árið 1990. 

Spá áframhaldandi lækkun í ár

Árið 2017 nam hagvöxturinn 6,8%, en greinendur telja að hann geti farið allt niður 6,3% á þessu ári. Sumir telja reyndar að hagvöxturinn sé þegar verri en opinberar tölur gefi til kynna.

Þess er jafnframt ekki vænst að örvunaraðgerðir stjórnvalda muni duga til að hífa hagvöxtinn upp á næsta ári, en þau hafa heitið því að styðja við hagkerfið til að koma í veg fyrir meiriháttar atvinnuleysi.

Stjórnvöld í kommúnistaríkinu hafa þó sagt að ekki verði um flóðbylgju að ræða líkt og gripið hafi verið til áður fyrr, því þó það hafi aukið hagvöxtinn hratt hafi þær aðgerðir skilið eftir gríðarlegar skuldir.

Stikkorð: Kína Donald Trump hagvöxtur Kína tollastríð
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is